Palestínumenn vilja skipahöfn

Fiskibátar við strönd Gaza.
Fiskibátar við strönd Gaza. AFP

Ráðherranefnd í Gaza sagði í morgun að undirbúningur við gerð skipahafnar sem geðri Palestínumönnum kleift að ferðast til og frá landinu væri hafinn.

Um 1,8 milljónir manna búa á einangraða landsvæðinu Gaza þar sem ýmsar hömlur hafa verið á sjó- og landleiðinni til og frá landsvæðinu síðan árið 2006. 

Eina leiðin að umheiminum sem ekki er stjórnað af Ísrael eru landamærin Rafah við Egyptaland en þau hafa að mestu verið lokuð frá því í október á síðasta ári og hafa Egyptar breikkað hlutlausa svæðið við landamærin eftir að árás var gerð á herstöðina við landamærin.

Alaa al-Batta, talsmaður ráðherranefndarinnar, sagði að undirbúningur væri nú hafinn og að innan tveggja mánaða gætu þeir sem leggja stund á nám erlendis og veikir einstaklingar nýtt sér skipaþjónustu til að komast til og frá Gaza.

Notkun hafnarinnar, sem nú er í Gaza, hefur verið einskorðuð við veiðimenn og leyfa yfirvöld í Ísrael sjómönnum aðeins að veiða innan sex sjómílna frá ströndu. Hersveitir Ísraela skjóta á hvert það skip sem ekki fer að fyrirmælunum.

Opnun hafnarinnar var ein helsta krafa Palestínu í samningaviðræðum þeirra við Ísrael við myndun samningsins sem batt enda á fimmtíu daga stríðið sem varði í júlí og ágúst á síðasta ári.

Samningaviðræðurnar kláruðust þó aldrei með formlegum hætti og tillagan var því aldrei lögð fram.

„Við erum að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að hleypa sjóumferð í gegn og undirbúa byggingu skipahafnar sem tengir Gaza við umheiminn,“ sagði Batta.

Engin viðbrögð hafa komið frá Ísrael vegna hugmyndarinnar um höfnina.

Nokkur skip, mönnuð stuðningsmönnum stjórnvalda í Palestínu, hafa reynt að sneyða hjá banninu og stefnt á að komast til Gaza en hafa öll verið stöðvuð af sjóher Ísraels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert