Í fangelsi fyrir að limlesta kynfæri stúlku

98% giftra kvenna í Egyptalandi höfðu verið umskornar, þ.e. kynfæri …
98% giftra kvenna í Egyptalandi höfðu verið umskornar, þ.e. kynfæri þeirra limlest. AFP

Egypskur áfrýjunardómstóll dæmdi í dag lækni í rúmlega tveggja ára fangelsi fyrir að framkvæma aðgerð á kynfærum unglingsstúlku, umskurð, sem dró hana til dauða. Læknirinn hafði áður verið sýknaður.

Í nóvember var læknirinn sýknaður í undirrétti. Faðir stúlkunnar, sem var fjórtán ára gömul, var einnig sýknaður. Þetta er fyrsta málið, sem snýr að limlestingu kynfæra kvenna, sem kemur við sögu dómsstóla í Egyptalandi frá því að slíkar aðgerðir voru bannaðar með lögum árið 2008.

Þrátt fyrir bannið er kynfæralimlesting stúlkna mjög útbreidd í Egyptalandi, sérstaklega í dreifbýli. 

Læknirinn var í dag dæmdur fyrir manndráp, vanrækslu, að stofna heilsu barns í hættu og fyrir að framkvæmda kynfæralimlestingu, sagði í dómsorðum.

Faðir stúlkunnar fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm. Þá var einkasjúkrastofunni, sem læknirinn framkvæmdi aðgerðina á í júní árið 2013, lokað í ár.

Við umskurð, sem nú er yfirleitt talað um sem kynfæralimlestingu, er snípur konunnar fjarlægður. Stundum er aðgerðin enn umfangsmeiri. Konur sem þurfa að þola slíka aðgerð þurfa oft að búa við þjáningar alla ævina og geta átt erfitt með að fæða börn sín.

Í könnun sem gerð var árið 2000 í Egyptalandi kom fram að 97% giftra kvenna í landinu höfðu farið í slíka aðgerð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert