Byssumenn hófu skothríð á hóteli

Corinthia hótelið í Trípólí.
Corinthia hótelið í Trípólí. AFP

Vopnaðir menn hófu skothríð inni á hóteli í Trípólí, höfuðborg Líbíu. Fram kemur á vef BBC, að a.m.k. tveir byssumenn hafi gengið inn og hafið skothríð í móttökusal Corinthia hótelsins, sem er vinsælt meðal erlendra ferðamanna.

Þá sprakk bílsprengja fyrir utan hótelið skömmu síðar.

Það er óljóst á þessari stundu hvort byssumennirnir séu enn inni í byggingunni. Þá er ekki vitað hvort saklausir borgarar séu þar enn og hvort þeir séu í haldi þeirra. 

BBC segir að fram kemur á Twitter-reikningi sem tengist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam, að liðsmenn samtakanna beri ábyrgð á árásinni. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest. 

Sjónarvottur segir í samtali við BBC, að hann hafi heyrt skothvelli og séð fólk á hlaupum. Allir hefðu komist út bakdyramegin.

BBC segir að lögreglumenn hafi náð að handtaka einn byssumann, en að tveir séu enn inni í hótelinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert