Forsetinn leggur niður leyniþjónustuna

Forseti Argentínu í ávarpinu í gær.
Forseti Argentínu í ávarpinu í gær. EPA

Forseti Argentínu, Cristina Fernandez de Kirchner, mun leggja niður leyniþjónustu landsins. Þetta tilkynnti forsetinn í ávarpi í gærkvöldi. Sagðist hún ætla að leggja fram lagafrumvarp til stofnunar nýrrar leyniþjónustu. BBC segir frá þessu.

Í ávarpinu sagði Fernandez að leyniþjónustan hafi lítið breyst síðan herstjórn ríkti í landinu til ársins 1983. Breytingin kemur í kjölfar undarlegs andláts saksóknarans Albertos Nisman, sem fannst látinn aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann átti að bera vitni gegn yfirmönnum í ríkisstjórninni. 

Hafði Nisman verið að rannsaka sprengjuárás í miðstöð gyðinga í Buenos Aires árið 1994 þar sem 85 létu lífið. Hafði hann ásakað fjölmarga yfirmenn í ríkisstjórninni, m.a. forsetann og utanríkisráðherrann Hector Timerman, um að fela meint tengsl stjórnvalda í Íran við sprenginguna. 

Nisman fannst látinn í íbúð sinni 18. janúar síðastliðinn. Í fyrstu var talið að hann hafi framið sjálfsmorð en byssa fannst á vettvangi. Rannsóknarmenn hafa þó sagt nú að ekkert sé útilokað. 

Forsetinn segist sannfærð um að Nisman hafi verið myrtur.

Dauði Nismans hefur vakið mikla athygli.
Dauði Nismans hefur vakið mikla athygli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert