Myrtu níu manns í hótelárás

Líbískar öryggissveitir fyrir utan Corinthia-hótelið í Trípólí.
Líbískar öryggissveitir fyrir utan Corinthia-hótelið í Trípólí. AFP

Níu manns, þar á meðal að minnsta kosti fimm útlendingar, eru sagði látnir eftir að vopnaðir menn réðust inn í lúxushótel í Trípólí í Líbíu og hófu skothríð þar í dag. Þrír öryggisverðir og fimm útlendingar voru skotnir til bana af árásarmönnunum. Talið er að gísl sem þeir tóku hafi látist þegar þeir sprengdu sig í loft upp.

Árásin var gerð á Corinthia-hótelið í höfuðborginni. Þjóðerni hinna látnu hefur ekki verið staðfest enn sem komið er. Talsmaður öryggisgæslunnar segir að tvær konur séu á meðal þeirra. Gíslinn lést þegar árásarmennirnir sprengdu sig í loft upp þegar þeir höfðu verið umkringdir á 24. hæð hótelsins.

Sú hæð er yfirleitt notuð af sendinefnd Katar í Líbíu en samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar voru engir diplómatar þar þegar árásin var gerð. Leiðtogi sjálfskipaðrar ríkisstjórnar Líbíu, Omar al-Hassi, var á hótelinu en honum var komið í skjól.

Fyrri frétt mbl.is: Byssumenn hófu skothríð á hóteli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert