Sjáið vélina hrapa í Kyrrahafið

Myndskeið náðist af því er eins hreyfils flugvél lenti í gríðarlegum vanda úti fyrir Havaí á sunnudag. Vélin varð eldsneytislaus og þurfti flugmaðurinn, sem var einn um borð, að setja út neyðarfallhlíf. Vélin sveif því lóðrétt um loftið á tímabili áður en hún hafnaði í Kyrrahafinu.

Flugvélin var ný og af gerðinni Cirrus SR22. Hún var í ferjuflugi við Havaí á leið til San Francisco en varð eldsneytislaus, samkvæmt upplýsingum bandarísku strandgæslunnar sem náði myndbandi af því er vélin skall í sjónum.

Myndbandið var tekið úr vél strandgæslunnar af tegundinni C-130 Hercules. Á því sést þegar fallhlífin opnast. Rúmlega þremur mínútum síðar hrapar hún í hafið. Vélin var í um 6.000 feta hæð, 1,8 kílómetra frá jörðu, er hún varð eldsneytislaus.

Flugmanninum tókst að komast lífs af í björgunarbát sem hann var með um borð í vélinni. Um hálftíma síðar kom skemmtiferðaskip honum til bjargar, rétt utan við eyjuna Maui.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert