Gervibanki sveik út fjóra milljarða

AFP

Fimm hafa verið handteknir fyrir að stofna gervibanka í borginni Nanjing í Kína, sem hafði 32 milljónir dollara eða rúmlega fjóra milljarða króna út úr grunlausum „viðskiptavinum.“

Sviksamlega kerfið var svo vandað að bankinn gat starfað í heilt ár án afskipta, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Var þar notaður sambærilegur búnaður og í ríkisreknum bönkum og var starfsfólkið klætt einkennisbúningum. 

„Þetta lítur út nákvæmlega eins og banki. Inngangurinn, gjaldkerarnir og fyrirkomulagið í heild, allt lætur viðskiptavini trúa að þetta sé raunverulegur banki. Framkvæmdastjórinn reyndi að fullvissa mig að bankinn væri áreiðanlegur. Ég hafði engar efasemdir,“ sagði einn fyrrum viðskiptavina bankans.

Hátt í 200 manns létu blekkjast og lögðu peninga inn í bankann, þar af einn yfir 200 milljónir króna. Sá viðskiptavinur hafði ákveðið að leggja peninga sína inn í bankann vegna auglýsingar sem hann sá, þar sem háum vöxtum var lofað. Þegar í ljós kom að vextirnir voru engir og bankinn neitaði að gefa honum peningana til baka, hafði hann samband við lögreglu. 

Lögregla komst síðar að því að fyrirtækið hafði aðeins leyfi sem landbúnaðarfyrirtæki og hafði ekki nauðsynlega heimild til að reka banka.

Fjórir „stjórnendur“ bankans voru handteknir, auk manns sem þóttist vera lagalegur fulltrúi bankans. Að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins var einn stjórnendanna kona sem flúði til Macau með hluta peninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert