Lítil viðbrögð við slæðuleysi

Michelle Obama ákvað að klæðast ekki hefðbundnum höfuðklæðnaði við heimsóknina.
Michelle Obama ákvað að klæðast ekki hefðbundnum höfuðklæðnaði við heimsóknina. AFP

Í nýlegri heimsókn bandarísku forsetahjónanna til Sádi Arabíu vakti höfuðfatleysi forsetafrúarinnar, Michelle Obama, nokkra athygli en furðu lítil viðbrögð miðað við að kvenkyns þegnum landsins er gert að hylja höfuð sitt með slæðu

Fjallað er um málið á vef BBC. Þar segir frá því að þrátt fyrir arabísku myllumerki (e.hashtag) sem beinþýðist sem „Michelle Obama án slæðu“ eða „Michelle Obama blygðunarleysi“ hafi verið tíst yfir 2.500 sinnum sé það hreint ekki mikið á þeim skala sem annars þekkist í landinu.

Þar að auki var annað myllumerki tengt heimsókninni mun vinsælla. Íbúar landsins notuðu myllumerki sem beinþýðist sem „Salman konungur yfirgefur Obama til að biðja“ 170 þúsund sinnum. Þótti konungurinn aðdáunarverður fyrir að fara frá Obama hjónunum til þess að biðjast fyrir eins og sýnt var í myndbandi sem fékk mikla dreifingu á YouTube. „Þetta er maðurinn sem fór frá leiðtoga mikilvægasta lands heimsins til þess að biðja,“ tísti einn þegna landsins.

Samkvæmt BBC voru flestir þeirra sem notuðu myllumerkið um bert höfuð forsetafrúarinnar að henda gaman af aðstæðum og íhaldsömum hefðum Sádí Arabíu. Sumir deildu myndum af henni með slæðu um höfuð sér á ferð hennar í Malasíu árið 2010 en aðrir notuðu myllumerkið til þess að kalla eftir meira frelsi í konungsríkinu. Stór hluti tístanna komu frá bandarískum notendum sem notuðu tækifærið til að skjóta á hefðir í Sádí Arabíu og raunar kom aðeins 37% tístanna frá þegnum landsins yfirhöfuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert