Nígería þarf hjálp

Nígerísk kona ásamt nýfæddu barni sínu í flóttamannabúðum í Tsjad. …
Nígerísk kona ásamt nýfæddu barni sínu í flóttamannabúðum í Tsjad. Barnið var nefnt eftir forseta Tsjad, Idriss Deby. AFP

Nígería þarf að sætta sig við það að fá hjálp til þess að sigrast á hryðjuverkasamtökunum Boko Haram. Þetta og fleira kom fram í yfirlýsingu fastanefndar Sameinuðu þjóðanna í Sahel í dag.

Rúmlega 13 þúsund manns hafa látist í árásum Boko Haram síðustu sex árin. Jafnframt hefur ein milljón manna misst heimili sín. 

Fyrr í mánuðinum útilokuðu nígerísk yfirvöld að þjóðin þyrfti hjálp frá Sameinuðu þjóðunum eða Afríkubandalaginu til að berjast við samtökin. Var litið svo á að þjóðin og félagar hennar gætu barist við Boko Haram hjálparlaust. 

„Nígería ræður ekki við vandamálið hjálparlaus, en Boko Haram hefur ekki aðeins látið til sín taka í Nígeríu,“ sagði Hiroute Guebre Sellassie hjá fastanefndinni í samtali við AFP. Sellassie er nú í höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa, þar sem Afríkubandalagið mun hittast á fundum um helgina.

„Það hefur verið flóð af flóttamönnum til Níger, Kamerún og jafnvel Tsjad,“ bætti hún við og varaði jafnframt við því að mögulega væru samtökin með æfingabúðir í Malí. 

Nígería býr að stærsta her Vestur-Afríku en hefur þó verið gagnrýnd þar og annars staðar fyrir að mistakast að stöðva uppgang og ofbeldi Boko Haram. 

Talið er að Afríkubandalagið muni ræða um helgina tillögu þess efnis að senda 3.000 hermenn, frá m.a. Nígeríu, Níger, Tjsad og Kamerún, til þess að berjast við meðlimi samtakanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert