Rændu 400 kílóa koparköplum

Hundruðir þúsunda Dana treysta á S-lestina.
Hundruðir þúsunda Dana treysta á S-lestina. mbl.is/AFP

Bíræfnir þjófar stela síendurtekið koparköplum af lestarteinum Danmerkur. Fjallað er um málið á vef danska ríkisútvarpsins en þar kemur fram að í nótt hafi 400 kílóa koparköplum verið stolið við Åmarken lestarstöðina í Kaupmannahöfn og því geti S-lestin (d. S-toget) ekki farið þar um. Í sambærilegu ráni síðastliðinn föstudag komust þjófar á brott með 200 kíló af köplum og telur lögregla að um atvinnuþjófa sé að ræða.

1.600 lestarferðir í Danmörku röskuðust á árinu 2014 vegna þjófnaðar á köplum. Hefur járnbrautafyrirtækið BaneDanmark þurft að endurbyggja tengingar á 173 mismunandi lestarleiðum eftir þjófnað og var kostnaðurinn við verkin samtals um 110 milljónir íslenskar krónur. Þegar allt er tekið saman má segja að á síðasta ári hafi verið nýr kapalþjófnaður oftar en annan hvern dag. 

„Þetta er gríðarlegt vandamál. Það eru 350 þúsund manneskjur háðar því að S-lestarbrautin virki dag hvern go þær verða auðvitað pirraðar þegar við getum ekki haldið akstursátælunum vegna kaplarána,“ segir Tony Bispeskov, upplýsingafulltrúi hjá járnbrautarfyrirtækinu DSB, í samtali við DR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert