Níræð amma elsti grunnskólanemi heims

Priscilla Sitienei er 90 ára gamall grunnskólanemi.
Priscilla Sitienei er 90 ára gamall grunnskólanemi. Skjáskot af Youtube

Hin níræða Priscilla Sitienei frá Kenía er talin vera elsti grunnskólanemi heims, en hún er í sama bekk og sex barnabarnabörn sín. Sitienei hafði aldrei tækifæri á því að læra að lesa og skrifa þegar hún var barn, svo hún ákvað að hefja skólagöngu fyrir fimm árum síðan.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segist Sitienei hafa viljað fara í skóla aðallega til að geta lesið Biblíuna, og gefið þeim sem finnst þeir vera of gamlir til að byrja í námi innblástur.

Sitienei starfaði áður sem ljósmóðir í 65 ár, og tók á móti nokkrum af þeim börnum sem nú eru bekkjarsystkini hennar í Leaders Vision Preparatory skólanum. Hún hyggst nota reynslu sína sem ljósmóður sem innblástur fyrir skrif sín.

Skólastjóri skólans segir innritun Sitienei hafa vakið áhuga hjá öðrum sem ekki hafa haft tök á að stunda nám en leitast nú við að setjast á skólabekk.

„Það sem mig langar að segja börnum heimsins, og þá sérstaklega stúlkum, er að menntun mun verða ykkar auður,“ segir Sitienei í samtali við BBC. Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert