Renzi styður Matterella til forseta

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. EPA

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, styður Sergio Mattarella, dómara við ítalska stjórnlagadómstólinn, í embætti forseta landsins. Giorgios Napolitanos baðst lausnar sem forseti landsins í byrjun mánaðarins.

Fyrsta umferð í forsetakjörinu fór fram í gær. Til þess að ná kjöri í einni af fyrstu þremur umferðunum þarf Mattarella að hljóta stuðning tveggja þriðju hluta kjósenda. Í fjórðu umferðinni þarf hann einungis hreinan meirihluta.

Fulltrúar í báðum deildum ítalska þingsins sem og héraðsstjórar landsins hafa kosningarétt í kjörinu.

Mattarella er, líkt og Renzi, í Lýðræðisflokknum. Hann er gamalreyndur stjórnmálakappi og hefur meðal annars gegnt embætti varaforsætisráðherra og varnarmálaráðherra.

Renzi hefur boðað töluverðar breytingar á stjórnskipun og kosningafyrirkomulagi í Ítalíu á næstu misserum og þá hefur hann jafnframt ráðist í gríðarmiklar efnahagsaðgerðir. Bindur hann vonir sínar við að ítalska hagkerfið rétt sem fyrst úr kútnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert