Yfirmanni dauðasveita sleppt

Eugene de Kock ber vitni fyrir sáttanefndinni árið 1998.
Eugene de Kock ber vitni fyrir sáttanefndinni árið 1998. AFP

Dómsmálaráðuneyti Suður-Afríku hefur tilkynnt að Eugene de Kock, yfirmanni dauðasveita sem stóðu fyrir einhverjum verstu voðaverkum aðskilnaðarstjórnarinnar, hafi verið veitt reynslulausn. Hann var handtekinn árið 1994 og hefur setið í fangelsi í tvo áratugi. 

Michael Masutha, dómsmálaráðherra landsins segir að de Kock hafi verið sleppt í þágu þess að „byggja upp þjóðina“ og vegna þess að hann hafi sýnt iðrun vegna glæpa sinna. De Kock, sem nú er 66 ára gamall, var handtekinn og dæmdur fyrir morð og mannrán þegar hann var yfirmaður alræmdrar lögreglusveitar sem starfaði nærri höfuðborginni Pretoriu.

Ákvörðunin um að veita de Kock reynslulausn hefur vakið deilur en margir halda því fram að hann eigi ekki skilið að vera fyrirgefið fyrir voðaverk sín og hann eigi að enda ævina í fangelsi. Stuðningsmenn de Kock benda hins vegar á að hann hafi verið gerður að blóraböggli fyrir aðskilnaðarstjórnina enda hafi engir aðrir yfirmenn lögreglunnar verið fangelsaðir. Glæpir hans hafi verið fyrirskipaðir af yfirboðurum hans.

De Kock játaði á sig 89 brot þegar hann bar vitni fyrir sáttanefnd sem komið var á fót í Suður-Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan var lögð af. Hann fékk tvo lífstíðarfangelsisdóma og 212 ár í fangelsi til viðbótar.

Frétt The New York Times af reynslulausn Eugene de Kock

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert