Neyðarástand á Galapagos eyjum

Galapagos eyjaklasinn er meðal annars frægur fyrir einstakar skjaldbökutegundir sem …
Galapagos eyjaklasinn er meðal annars frægur fyrir einstakar skjaldbökutegundir sem þar hafa þróast síðustu árþúsundin. AFP

Yfirvöld í Ekvador kölluðu í dag eftir því að lýst verði yfir neyðarástandi á Galapagos eyjum. Vilja þau þannig koma í veg fyrir frekara tjón á hinu óspjallaða umhverfi eyjaklasans eftir að skip strandaði þar á miðvikudag.

Skipið var að flytja 1.400 tonn af frakt, þar á meðal hættuleg eiturefni auk þess sem í skipinu eru nærri fjörutíu þúsund lítrar af olíu. Er þetta þriðja skipsstrandið á tæpu ári á þessu svæði.

Galapagos eyjarnar, sem eru hluti af Ekvador, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Eyjarnar eru staðsettar þúsund kílómetrum frá strönd landsins en þær eru frægar fyrir fjölda einstakra tegunda sem þróast hafa þar í einangrun frá umheiminum. Fjarlægðin laðaði náttúrufræðinginn Charles Darwin til eyjanna árið 1835, þar sem hann vann að gerð þróunarkenningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert