Lögreglumaður myrti handtekinn mann

Egypskir lögreglumenn.
Egypskir lögreglumenn. AFP

Egygpskur lögreglumaður hefur verið handtekinn fyrir að myrða mann sem hann var með í haldi. Maðurinn sem lést hafði áður hótað lögreglumanninum lífláti auk þess að formæla honum og snöggreiddist því lögreglumaðurinn, reif upp skammbyssu sína og skaut manninn til bana.

Innanríkisráðuneytið egypska greindi frá þessu á samfélagsvefnum Facebook. Þar segir að lögreglumaðurinn hafi handtekið manninn þar sem hann reyndi að koma fyrir sprengju í Al-Warraq-hverfinu í Kaíró. Hann er talinn vera meðlimur í Múslímska bræðralaginu en stjórnvöld hafa bannað samtökin í landinu.

Maðurinn meiddist nokkuð við handtökuna og var því fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Þar hóf hann að úthúða lögreglumanninum og hóta öllu illu sem leiddi til þess að lögreglumaðurinn svipti hann lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert