Obama stendur með Grikkjum

Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikklands
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikklands EPA

Gríski fjármálaráðherrann, Yanis Varoufakis, muni funda með breskum starfsbróður sínum á eftir en grísk yfirvöld leita nú eftir því að fá stuðning við endurskoðun á skuldum gríska ríkisins þrátt fyrir andstöðu þýskra yfirvalda. Alls fengu Grikkir 240 milljarða evra að láni þegar ríkið rambaði á barmi gjaldþrots.

Barak Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur varað við því að tökin verði hert á Grikkjum vegna skulda landsins. „Þú getur ekki haldið áfram að þrýsta á ríki sem eru í miðri efnahagslægð,“ sagði Obama í viðtali við CNN.

Obama segir að grískt efnahaglíf sé í brýnni þörf á endurskipulagningu en varar við því að gripið verði til of róttækra breytinga og aðhald aukið enn frekar. Það er mjög erfitt að koma á slíkum breytingum ef lífsgæði fólks hafa versnað um 25%, segir Obama og bendir á að hvorki stjórnmála- né félagslegt kerfi þoli slíkt áhlaup til lengri tíma litið.

Varoufakis og George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, munu hittast á fundi klukkan 11 en Varoufakis átti fund í París í gær með fjármálaráðherra Frakklands.

Grikkir ætla ekki að þiggja frekara fé úr björgunarpakkanum en til stóð að ríkið fengi nú greidda 7,2 milljarða evra úr lánapakka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandinu.

„Það er ekki vegna þess að við þurfum ekki á peningunum að halda - við erum örvæntingarfull,“ sagði hann á blaðamannafundi með fjármálaráðherra Frakklands, Michel Sapin, í gær. „Það er hins vegar það sem þessi ríkisstjórn snýst um - að binda endi á þessa vanabindingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert