Staðfestu dauðadóm yfir 183

AFP

Dómstóll í Egyptalandi hefur staðfest dauðadóm yfir 183 félögum í Bandalagi múslíma fyrir morð á 13 lögreglumönnum í bæ skammt frá Kaíró í ágúst 2013.

Í desember hafði dómurinn gefið út bráðabirgðaniðurstöðu dómsins yfir 188 sakborningum sem voru sóttir saman til saka. Tveir þeirra voru sýknaðir í dag og einn, sem er unglingur, var dæmdur í tíu ára fangelsi. Fallið var frá ákæru yfir tveimur eftir að í ljós kom að sakborningarnir voru látnir.

Af þeim sem voru dæmdir eru 143 þegar í fangelsi en þeir voru dæmdir sekir um að hafa tekið þátt í árás á lögreglustöð í bænum Kerdassa hinn 14. ágúst 2013 þar sem 13 lögreglumenn voru drepnir. Árásin var gerð sama dag og öryggissveitir brutu á bak aftur og eyðilögðu búðir stuðningsmanna Mohameds Morsi sem var hrakinn frá völdum sem forseti Egyptalands.

Frá því herinn gerði valdarán og hrakti Morsi frá völdum 3. júlí 2014 hafa 1.400 látist í árásum lögreglu á mótmælendur.

Hundruð Egypta hafa verið dæmd til dauða í fjöldaréttarhöldum sem Sameinuðu þjóðirnar segja að eigi sér enga hliðstæðu í nútímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert