Vill samkomulag fyrir lok maí

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, vill að samkomulag á milli grískra stjórnvalda og alþjóðlegra lánveitenda landsins liggi fyrir í lok maí. Fram að þeim tíma myndi Grikkland ekki óska eftir frekari lánafyrirgreiðslum. Þetta sagði ráðherrann við fréttamenn í París.

Varoufakis vinnur að því þessa dagana að afla stuðnings innan Evrópusambandsins við kröfur Grikkja um að stór hluti skulda þeirra verði afskrifaður. Þýskir ráðamenn hafa þegar hafnað því. Ráðherrann hyggst á næstunni ferðast meðal annars til Berlínar og Frankfurt í Þýskalandi en höfuðstöðvar Evrópska seðlabankans er að finna í síðarnefndu borginni.

„Það er mikilvægt að við hittumst,“ er haft eftir Varoufakis í frétt AFP varðandi mögulegan fund með Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands. Fram kemur að þýska fjármálaráðuneytið hafi hins vegar ekki formlega fengið ósk um slíkan fund frá grískum stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert