Ætlar að starfa áfram við fréttamennsku

Ástralski blaðamaðurinn Peter Greste, sem sat í fangelsi í Egyptalandi í 400 daga en var látinn laus fyrr í vikunni, segir að hann ætli að halda áfram að starfa við fréttamennsku.

Greste, sem er fréttamaður hjá Al-Jazeera, kom heim til Ástralíu í gær. Hann segir að það hafi verið komið vel fram við hann í fangelsinu í Kaíró en hann var sakaður um stuðning við stjórnmálaflokkinn Bræðralag múslíma sem er bannaður í Egyptalandi.

„Mig hefur dreymt um þessa stund svo oft og þetta sem ég upplifi núna er svipað því sem ég átti von á. En þetta er miklu, miklu betra,“ sagði Greste þegar hann ræddi við blaðamenn í Brisbane í gær. 

Greste viðurkennir að dvölin í fangelsinu hafi verið líkamleg sem og andleg þrekraun. En hann og félagar hans hjá Al-Jazeera, sem einnig voru handteknir sakaðir um stuðning við Bræðalag múslíma, þeir Mohamed Fahmy og Baher Mohamed hafi mætt virðingu í fangelsinu og ekki beittir harðræði. Þeir hafi haft aðgang að því sem þeir þurftu á að halda þrátt fyrir að dvölin hafi verið langt frá því lúxusdvöl. Enda ekki við því að búast þar sem þeir hafi verið í fangelsi.

„Staðreyndin er sú að ég er við þokkalega góða heilsu og ég veit ekki til þess að ég glími við nokkur heilsuvandamál.““

Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, hrósaði leiðtoga Egyptalands, Abdel Fattah al-Sisi, fyrir laus Greste en Abbott sagðist hafa rætt við starfsbróður sinn í Egyptalandi og þakkað honum fyrir sinn hlut í að vinna að lausn blaðamannsins.

Segir al-Sisi sómakæran mannvin 

Sisi, sem er fyrrum herforingi, hefur verið harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum fyrir það hvernig staðið er að því að brjóta á bak aftur stjórnarandstöðuna. Hundruð stuðningsmanna forvera hans í starfi, Mohamed Morsi, hafa verið dæmdir til dauða undanfarnar vikur fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum.

En Abbott segir að al-Sisi sé sómakær vinur. Hann sé mannvinur og sýni öðrum samúð. „Ég verð að segja að ég held að hann sé maður sem Ástralir geti haldið áfram aðvinna með að margvíslegum málum.“

Greste og starfsbræður hans voru handteknir þegar Egyptar og Katarbúar deildu hart um diplómatísk atriði en Al-Jazeera sjónvarpsstöðin er í eigu stjórnvalda í Katar. Fréttastöðin hafði gagnrýnt harðlega hvernig var staðið að því að  brjóta á bak aftur starfsemi Bræðralags múslíma eftir að herinn tók völdin og hrakti Morsi frá völdum. Síðan þá hafa stjórnvöld í Katar reynt að bæta samskiptin við Egyptaland og Al-Jazeera hefur lokað arabískumælandi stöð sinni sem studdi Bræðralag múslíma.

Greste ætlar ekki að hætta í blaðamennskunni. „Ég vil ekki hætta starfi mínu. Ég er fréttamaður. Það er það sem ég vinn við,“ sagði hann og bætti við að hann væri að skoða ýmsa möguleika þar að lútandi.

Á sama tíma og Greste hefur verið látinn laus þá eru félagar hans enn á bak við lás og slá. Hann segir að þeir hafi myndað náin tengsl í fangelsinu og það hafi verið erfitt að yfirgefa þá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert