Dró fram rússnesk vegabréf

Fulltrúar frá ÖSE skoða eyðilegginguna í Debaltseve, næri Donetsk.
Fulltrúar frá ÖSE skoða eyðilegginguna í Debaltseve, næri Donetsk. EPA

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands, Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, og Vladimir Pútín Rússlandsforseti, munu ræða saman í síma í dag um leiðir til að binda enda á átökin í austurhluta Úkraínu.

Á hliðarlínum leiðtogafundar um öryggismál í Munchen í gær, dró Poroshenko fram vegabréf og auðkenniskort sem hann sagði að hefðu verið tekin af rússneskum hermönnum á úkraínsku landsvæði. Sagði hann um að ræða sönnun þess að Rússar tækju sannarlega þátt í bardögum í landinu.

„Í dag er fyrrum bandamaður að heyja stríð gegn sjálfstæðu ríki,“ sagði hann.

Átta almennir borgarar létu lífið í átökum í gær, en stjórnvöld í Kíev hafa sakað aðskilnaðarsinna um að sanka að sér þungavopnum í undirbúningi fyrir nýja sókn.

Utanríkisráðherra Þýskalands Frank-Walter Steinmeier sagði í gær að örlög yfirstandandi tilraunar til að koma á friði myndu ráðast innan tveggja til þriggja daga. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði að í ljósi sögunnar þyrfti að dæma Rússa af aðgerðum, ekki orðum. „Ekki segja okkur, sýndu okkur, Pútín forseti!“ sagði hann.

Sjálfur sagði Pútín að Rússland stæði ekki í stríði við nokkurn mann, en gagnrýndi harkalega þær refsiaðgerðir sem Vesturlönd hefðu gripið til gegn Rússum. „Það er ekkert stríð, þökkum guði fyrir það. En það er sannarlega tilraun til að hamla framþróun okkar,“ sagði hann í samtali við TASS fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert