Langar að gera hjartaaðgerð en kann það ekki

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur áhyggjur af því að Alexis Tsipras …
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur áhyggjur af því að Alexis Tsipras sé búinn að koma sér í aðstæður sem hann ræður ekki við. AFP

Neyðarfundur fjármálaráðherra evruríkjanna verður haldinn í dag, en til umræðu verður sú staða sem komin er upp í málefnum Grikklands. Fulltrúar grískra stjórnvalda munu leggja fram tillögur er varða næstu skref á vegferð landsins í átt að efnahagslegri endurreisn.

„Ég vil endurtaka í dag, að hversu mjög sem Schaeuble biður um það, þá munum við ekki biðja um framlengingu björgunarpakkans,“ sagði forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras á gríska þinginu á þriðjudag. Schaeuble er Wolfang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands.

Tsipras stóð af sér vantrauststillögu á þriðjudag en flokkur hans nýtur gífurlegra vinsælda heima fyrir, ekki síst vegna þess hve hinn 40 ára forsætisráðherra hefur staðið keikur gagnvart hótunum Evrópuleiðtoga, sem segja Grikki ekki eiga annan kost en að halda sig við fyrrnefnda björgunaráætlun, sem rennur út í lok mánaðar.

Schaueble hefur t.d. sagt að „þetta sé búið“ ef Grikkir standa ekki við skilmála björgunarpakkans.

Fyrsta ríkisstjórnin sem gengur upprétt á fund ráðherranna

Grikkir hafa hótað því að leita á náðir Rússlands eða Kína ef Evrópa verður ekki við óskum þeirra um hagstæðari samning. Tsipras hefur verið boðið til Peking, og þá mun utanríkisráðherrann gríski heimsækja Moskvu á næstu dögum.

Varnarmálaráðherrann Panos Kammenos sagði í gær að stjórnvöld í Aþenu myndu horfa til „plans B“ ef Evrópusambandið kæmi þeim ekki til aðstoðar, en það gæti falið í sér samstarf við Washington, Peking eða Moskvu.

Áður en hann lagði af stað til Brussel sagði fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis að hans væri fyrsta ríkisstjórnin sem gengi á fund fjármálaráðherra evruríkjanna upprétt, en ekki beygð. Áætlað er að viðræðurnar hefjist um kl. 16.30.

Fæstir kollega Varoufakis eru viljugir til að koma til móts við kröfur Grikkja, þrátt fyrir að sérfræðingar séu flestir sammála um að skuldir gríska ríksins muni aldrei fást greiddar. Varoufakis mun biðla til ráðherranna um að víkja frá þeim björgunarpakka sem samið hafði verið um, og komast að nýju samkomulagi sem myndi horfa til þess að gefa hinum almenna borgara í Grikklandi örlítið andrými.

Fara fram á umtalsverðar breytingar á fyrra samkomulagi

Tillögur Grikkja fela m.a. í sér að þeir standi við 70% þeirra skilmála sem samið var um, en að endursamið verði um 30%. Þá vilja þeir binda endurgreiðslur við hagvöxt. Tsipras og flokksfélagar hans hafa jafnframt óskað eftir skammtímaláni til að fleyta þeim fram í september, þannig að hægt sé að koma á nauðsynlegum endurbótum.

Grikkir hafa einnig krafist þess að geta hækkað lágmarkslaun og afnumið óvinsælan eignaskatt, en um er að ræða aðgerðir sem voru skilyrði björgunarpakkans umdeilda. Tsipras tilkynnti í dag að unnið yrði að nýrri áætlun um umbætur í samstarfi við OECD.

Grikkland fékk fyrst neyðarlán árið 2010 og hefur skuldbundið sig til að vera undir eftirliti lánadrottna sinna; framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jean-Claude Junkcer, sagði á fundi með Evrópuþingmönnum að hann hefði áhyggjur af því að Tsipras væri búinn að koma sér í aðstæður sem hann réði ekki við.

„Hann bar Tsipras saman við læknanema á fyrsta ári sem langar að gera hjartaskurðaðgerð, en hefur ekki hugmynd um hvernig á að fara að,“ sagði einn viðstaddra.

Fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis segist ganga hnarreistur á fund kollega sinna.
Fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis segist ganga hnarreistur á fund kollega sinna. AFP
Schaeuble hefur ekki gefið tilefni til að ætla að neitt …
Schaeuble hefur ekki gefið tilefni til að ætla að neitt verði gefið eftir í viðræðum við Grikki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert