Ríkisstjóri biðst afsökunar á lögregluofbeldi

Myndavél í lögreglubifreið tók atvikið upp. Hér sést þegar lögreglumaðurinn …
Myndavél í lögreglubifreið tók atvikið upp. Hér sést þegar lögreglumaðurinn skellir Patel í jörðina.

Ríkisstjóri Alabama í Bandaríkjunum hefur beðið ríkisstjórn Indlands afsökunar á því harðræði sem lögreglumaður beitti 57 ára gamlan indverskan karlmann í úthverfi borgarinnar Madison nýverið. Lögreglumaðurinn skellti indverska manninum í jörðina með þeim afleiðingum að hann lamaðist að hluta.

Ríkisstjórinn Robert Bentley segir að lögreglumaðurinn hefði beitt Sureshbai Patel allt of mikilli hörku fyrr í þessum mánuði. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögreglumaðurinn hefur verið kærður fyrir líkamsárás, en hann neitar sök. Patel hefur höfðað mál þar sem hann heldur því fram lögreglan hefði beitt hann hörku vegna kynþáttar hans. 

Patel, sem er indverskur bóndi, var nýkominn til Bandaríkjanna þegar atvikið varð 6. febrúar sl. Hann kom til að aðstoða son sinn og fjölskyldu hans. 

Hann var á göngu í hverfinu þegar lögreglumenn höfðu af honum afskipti, en íbúi í hverfinu hafði haft samband við lögreglu vegna grunsamlegra mannaferða.

Myndskeið úr lögreglubílum hafa verið birt opinberlega. Þar sést hvernig Patel, sem talar enga ensku, reyndi að ganga í burtu þegar lögreglumennirnir ræddu við hann. Þeir handtaka hann og fljótlega er honum skellt af hörku í jörðina. 

Patel hlaut áverka, m.a. lamaðist hann að hluta í öðrum fótlegg. Hann útskrifaðist af sjúkrahúsi í fyrradag og er nú í endurhæfingu að sögn lögmanns hans. 

Var skellt í jörðina og lamaðist

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert