Óttast árásir í Evrópu frá Líbíu

Stjórnvöld á Ítalíu vöruðu á dögunum við hættu á því að liðsmenn Ríkis íslams, samtaka íslamista, kæmu sér upp vígjum í Líbíu og notuðu þau til að gera árásir í Evrópulöndum.

Bréf frá manni, sem talinn er vera einn af áróðursmönnum Ríkis íslams, benda til þess að samtökin hafi í hyggju að notfæra sér nálægð Líbíu við Evrópu til að heyja stríð handan Miðjarðarhafsins í löndum sunnanverðrar Evrópu, að sögn breska dagblaðsins The Daily Telegraph.

Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, sagði í ræðu á þingi landsins á miðvikudag að Ítalir væru tilbúnir að gegna forystuhlutverki í því að afvopna vígasveitir í Líbíu og koma á friði í landinu ef Sameinuðu þjóðunum tekst að koma á vopnahléi til að binda enda á átök sem hafa staðið frá því að einræðisstjórn Muammars Gaddafis var steypt af stóli árið 2011 með stuðningi vestrænna ríkja. Líbía var nýlenda Ítalíu til ársins 1947 og varð sjálfstætt ríki árið 1951.

Binda þarf enda á glundroðann

Gentiloni sagði að mikil hætta væri á því að liðsmenn Ríkis íslams tækju höndum saman við vopnaða hópa og glæpagengi í Líbíu. Tvær ríkisstjórnir hafa tekist á um völdin í landinu síðan stjórn, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, flúði til hafnarborgarinnar Tobruk eftir að uppreisnarhópar náðu höfuðborginni Trípolí á sitt vald og komu á fót nýrri stjórn. Stór svæði eru á valdi annarra hópa og glundroði ríkir í landinu.

Gentiloni lagði áherslu á að Ítalir hefðu ekki í hyggju að hefja hernað í Líbíu en sagði að nauðsynlegt væri að ríki heims gerðu þegar í stað ráðstafanir til að binda enda á glundroðann í landinu.

Yfir 5.300 flóttamenn hafa farið til Ítalíu frá Líbíu það sem af er árinu, nær 60% fleiri en á sama tíma í fyrra. Á síðasta ári fóru meira en 170.000 manns yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu, þeirra á meðal tugir þúsunda Sýrlendinga sem flúðu borgarastríðið í heimalandinu.

Margir flóttamenn hafa drukknað í Miðjarðarhafi eftir að hafa greitt smyglurum fyrir að sigla með þá til Ítalíu. Til að mynda er talið að yfir 300 flóttamenn hafa drukknað í vikunni sem leið þegar bátar þeirra sukku.

Vilja stöðva björgunaraðgerðir

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar á Ítalíu hafa hvatt til þess að leitar- og björgunaraðgerðum varðskipa í Miðjarðarhafi verði hætt vegna þess að þeir telja hættu á því að hryðjuverkamenn laumist til Ítalíu með flóttafólkinu í því skyni að fremja hryðjuverk. Stjórn Ítalíu kveðst ekki geta útilokað að þetta geti gerst en segir að nú þegar sé leitað að hugsanlegum hryðjuverkamönnum á meðal flóttafólksins. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að Ríki íslams hafi reynt að koma hryðjuverkamönnum til Ítalíu með þessum hætti.

Fullyrt hefur verið að allt að 200.000 manns ætli að reyna að komast yfir hafið frá Líbíu til Ítalíu á næstu mánuðum. Að sögn fréttaveitunnar AFP hafa þó ekki komið fram neinar áreiðanlegar vísbendingar um að þetta sé rétt.

Geri árásir á skip

The Daily Telegraph segir að fámennir hópar á vegum Ríkis íslams starfi nú þegar í Líbíu. Liðsmenn samtakanna birtu á dögunum myndskeið þar sem þeir sáust hálshöggva um 20 Kopta, þ.e. kristna Egypta sem störfuðu í Líbíu. „Við sigrum Róm, með leyfi Allah,“ sagði einn vígamanna samtakanna á myndskeiðinu. Drápin á Koptunum urðu til þess að her Egyptalands gerði loftárásir fyrr í vikunni á bækistöðvar íslamista í Líbíu.

Að sögn The Daily Telegraph kemur fram í bréfum frá manni, sem talinn er vera einn af helstu áróðursmönnum Ríkis íslams, að samtökin hafi í hyggju að ná Líbíu á sitt vald í því skyni að gera árásir þaðan á lönd í sunnanverðri Evrópu. Íslamistarnir hyggist senda fjölda liðsmanna sinna frá Sýrlandi og Írak til Líbíu og senda þá síðan með bátum yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu, láta þá þykjast vera flóttamenn frá Sýrlandi. Markmiðið sé að fremja hryðjuverk í sunnanverðri Evrópu og einnig að gera árásir á skip í Miðjarðarhafi.

Ekki er hægt að sanna að bréfin endurspegli stefnu samtakanna en The Daily Telegraph hefur eftir sérfræðingum að höfundur þeirra sé áhrifamikill meðal stuðningsmanna íslamistanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert