Nokkrir tugir settir í farbann

Frönsk yfirvöld hafa gert vegabréf sex franskra ríkisborgara upptæk og fjörtíu til viðbótar verður bannað að yfirgefa landið eftir að fregnir bárust af fyrirhuguðu ferðalagi þeirra til Sýrlands og Íraks.

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, greindi frá þessu í dag en þetta er í fyrsta skipti sem þessum aðgerðum er beitt frá því ný lög um hryðjuverkastarfsemi voru sett í landinu í nóvember.

Cazeneuve  segir að fólk sem taki þátt í hryðjuverkastarfsemi í Írak og Sýrlandi ógni þjóðaröryggi landsins. Þeir sex sem hafa verið sviptir vegabréfum og öðrum persónuskilríkjum voru langt komnir með undirbúning fyrir ferðalagið en þeir geta óskað eftir því eftir hálft ár að fá skilríki sín afhent að nýju. 

Mikill viðbúnaður er í innanríkisráðuneytinu vegna mála sem þessa en alls hafa borist yfir eitt þúsund tilkynningar um fólk sem íhugar að ganga til liðs við skæruliðasamtök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert