Skuldaskil - tímasetningar

Líkneski Alexis Tsipras forsætisráðherra í hátíðargöngu í Aþenu.
Líkneski Alexis Tsipras forsætisráðherra í hátíðargöngu í Aþenu. AFP

Segja má að stjórnvöld í Grikklandi séu í kapphlaupi við tímann hvað varðar viðræður um endurskoðun lánaskilmála björgunarpakkans svokallaða, en gildistími hans rennur út í þessari viku. Þeir hafa tryggt sér fjögurra mánaða framlengingu, sem er því skilyrði háð að þeir leggi fram tillögur um umbætur fyrir klukkan 23 í kvöld.

Þriðjudagur 24. febrúar:

Á morgun munu fjármálaráðherrar evruríkjanna ákveða hvort umbótalistinn sé viðunandi. Viðræður munu líklega fara fram um fjarfundabúnað, nema ef stór álitamál komi upp. Þá má gera ráð fyrir fundi í Brussel.

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, var mjög skorinorður á föstudag og sagði stöðuna einfaldlega þá að ef tillögur Grikkja um umbætur þóknaðist ekki ráðherrunum, yrði ekkert af framlengingu.

Tillögurnar verða fyrst og fremst að hugnast Þjóðverjum, sem hafa sett sig upp á móti nokkurs konar breytingum á lánaskilmálum. Leiða má líkur að því að málamiðlum myndi felast í því að breyta skilmálum, án þess að það hefði áhrif á heildarniðurstöðuna sem þeim er ætlað að skila.

Laugardagur 28. febrúar:

Formlegur fyrningardagur björgunarpakkans. Ef tillögur Grikkja hugnast evruhópnum taka nokkur þjóðþing samkomulagið um framlengingu pakkans til umfjöllunar. Þau verða að skila niðurstöðu á laugardag, í síðasta lagi.

Fyrir apríllok:

Evruríkin og fulltrúar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taka umbótalista Grikkja til frekari umfjöllunnar. Ef allt fer vel munu ESB og SE samþykkja tvær lánagreiðslur til Grikkja, hvor að upphæð 1,8 milljón evra.

Lánaáætlun AGS og Grikklands, sem gildir til 2016, gerir einnig ráð fyrir greiðslu til handa Grikkjum á þessum tíma.

Grikkir hafa neitað að eiga beinar viðræður við hið svokallaða þríeyki.

Fyrir júnílok:

Hin fjögurra mánaða framlenging rennur sitt skeið og samkomulag verður að liggja fyrir um framhaldið, þar sem ljóst er að gríska ríkið stendur ekki á eigin fótum. Skuldir þess nema um 320 milljörðum evra, en það jafngildir 175% stærðar gríska hagkerfisins.

Grikkir geta ekki aflað nægilegs fjármagns á mörkuðum og vöxtur hagkerfisins er ekki slíkur að gangi að greiða niður skuldir. Neyðarlán halda grískum bönkum á floti.

Einu kostirnir í stöðunni virðast vera önnur framlenging eða nýr björgunarpakki, en nýkjörin stjórnvöld í Grikklandi hafa heitið því að haga seglum þannig að landið þurfi ekki lengur á björgun að halda.

Fjármálaráðherra Frakka, Michel Sapin, hefur hins vegar gefið í skyn að það muni taka Grikki mörg ár að ná þeim áfanga. Fjárfestar hafa þegar þurft að sætta sig við 70% lánaniðurfærslu, en stærstur hluti skulda gríska ríkisins er nú í eigu Evrópuríkja.

20. júlí og 20. ágúst:

Gjalddagi tveggja lána Seðlabanka Evrópu til Grikkja. Samtals 7 milljarðar evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert