Snýr aftur þrátt fyrir Hitlers-skeggið

Lutz Bachmann.
Lutz Bachmann. AFP

Meðlimir þýsku hreyfingarinnar PEGIDA, sem beint er gegn búsetu múslima í Evrópu, hafa kosið fyrrverandi leiðtoga sinn Lutz Bachmann aftur til forystu í hreyfingunni einungis fjórum vikum eftir að hann sagði af sér. Afsögnin átti sér stað í kjölfar þess að vakin var athygli á mynd sem Bachmann setti á internetið síðasta haust þar sem hann var í gervi nasistaforingjans Adolfs Hitlers.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að Bachmann hafi verið kosinn í leynilegri kosningu í skipulagsráð PEGIDA sem þýðir að hann verður einn af þremur leiðtogum hreyfingarinnar. Myndin af Bachmann í gervi Hitlers vakti hörð viðbrögð í síðasta mánuði þegar vakin var athygli á henni. Í kjölfarið sagði hann af sér sem fyrr segir.

Við forystunni í PEGIDA tók Kathrin Oertel en hún hætti skömmu síðar og stofnaði nýja hreyfingu sem nefnist Direct Democracy for Europe eða Beint lýðræði fyrir Evrópu í lauslegri þýðingu. PEGIDA hefur staðið fyrir fjöldagöngum í Þýskalandi og félög tengd henni í öðrum ríkjum í Evrópu. Hins vegar hafa sífellt færri tekið þátt í þeim samkvæmt fréttinni.

Frétt mbl.is: Hættir vegna Hitlers-skeggsins

Frétt mbl.is: Klæddi sig upp sem Hitler „í gríni“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert