Iñárritu skýtur á stjórnvöld

Leikstjórinn Alejando González Iñárritu hlaut Óskarsverðlaun fyrir mynd sína Birdman.
Leikstjórinn Alejando González Iñárritu hlaut Óskarsverðlaun fyrir mynd sína Birdman. AFP

Mexíkóski leikstjórinn Alejandro González Iñárritu sem hlaut Óskarsverðlaunin á sunnudagskvöld fyrir mynd sína „Birdman“ segir að spilling í heimalandi sínu hafi náð óþolandi hæðum. Ræða hans þegar hann tók við verðlaununum hefur vakið mikla athygli í Mexíkó.

Iñárritu sagðist vonast eftir því að Mexíkóar „finndu og mynduðu þá ríkisstjórn sem þeir ættu skilið“. Almennt hefur þeim orðum hans verið tekið sem gagnrýni á Enrique Peña Nieto, forseta landsins. Sá brást fljótt við og varði ríkisstjórn sína í kjölfar ummæla leikstjórans.

Óskarsverðlaunahafinn dró hins vegar ekkert út þegar hann mætti í útvarpsviðtal í dag.

„Ég held að óánægja, óréttlæti, spilling og refsileysi hafi náð óþolandi hæðum. Ég veit ekki hver lausnin er. Ég myndi ekki dirfast að segja til um það þar sem ég er ekki sérfræðingur í stjórnmálum. Ég hef hins vegar þrár og held að allir Mexíkóar upplifi sömu örvæntinguna vegna þess eymdarástands sem við upplifum nú,“ sagði leikstjórinn.

Spilling er almennt talin mikil og þá hefur gríðarlegur fjöldi fólks fallið í fíkniefnastríðinu sem háð hefur verið þar undanfarin ár. Í september hurfu 43 námsmenn í Guerrero-ríki og er talið að þeir hafi verið myrtir af spilltum lögreglumönnum og fíkniefnasmyglurum. Málið hefur enn ekki verið upplýst.

Iñárritu sagði að Mexíkóar þyrftu að sammælast um það sem þyrfti að breytast í eitt skipti fyrir öll. Þeir þyrftu að berjast saman fyrir lífi með meiri reisn, öryggi og meiri réttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert