Dreifingin flokkast til áróðurs

Avigdor Lieberman og flokkur hans hafa kallað eftir því að …
Avigdor Lieberman og flokkur hans hafa kallað eftir því að Charlie Hebdo verði dreift í Ísrael en prentútgáfa blaðsins fæst ekki þar í landi. EPA

Hæstiréttur Ísraels hefur heimilað stjórnmálaflokknum Yisrael Beitenu að dreifa eintökum af háðstímaritinu Charlie Hebdo í tengslum við kosningabaráttu flokksins. Þingkosningar fara fram í Ísrael 17. mars næstkomandi.

Stuðningsmenn Yisrael Beitenu notuðu eintök af blaðinu í gjörningi í Tel Aviv fyrr í mánuðinum, en veigruðu sér við því að dreifa því á meðan dómstóllinn velti fyrir sér hvort staðfesta bæri ákvörðun kjörstjórnar, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að dreifing tímaritsins jafnaðist á við mútur.

Um var að ræða eintök með skopmyndum af Múhameð spámanni. Það varð ofan á að snúa ákvörðun kjörstjórnar, en samkvæmt dómi hæstaréttar flokkast dreifing blaðsins til hefðbundins kosningaáróðurs.

Fyrrnefndur gjörningur fór þannig fram að stuðningsmenn Yisrael Beitenu komu upp standi í hjarta Tel Aviv, þar sem almenningur gat flett í gegnum eintök af Charlie Hebdo, nánar tiltekið tölublaðið sem kom út í kjölfar árásanna í París. Þá stóðu flokksmeðlimir við standinn með bundið fyrir munninn og eintök á lofti.

Yisrael Beitenu er hægri harðlínuflokkur, en stofnandi hans og leiðtogi er utanríkisráðherrann Avigdor Lieberman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert