Fastafulltrúarnir gefi frá sér neitunarvald

Hörð átök hafa geisað víða um heim, m.a. í Úkraínu …
Hörð átök hafa geisað víða um heim, m.a. í Úkraínu þar sem þessi ljósmynd var tekin. EPA

Amnesty International hefur hvatt ríkin fimm sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að gefa frá sér neitunarvald í málum þar sem verið er að fremja grimmdarverk.

Í árlegri skýrslu samtakanna kemur fram, að það sé til skammar hvernig alþjóðasamfélagið hafi brugðist við mörgum hörmungum í heiminum á síðasta ári. 

Þetta kemur fram á vef BBC.

Þá segir Amnesty, að auðug ríki heims hafi tekið þá „andstyggilegu“ afstöðu að taka ekki á móti fleiri flóttamönnum. Samtökin bæta við að útlitið í ár sé ekki gott.

Frá fundi öryggisráðs SÞ í New York.
Frá fundi öryggisráðs SÞ í New York. AFP

Í skýrslunni segir ennfremur, að árið 2014 hafi verið ár hörmunga fyrir fórnarlömb átaka og ofbeldisverka. Amnesty hvetur þjóðarleiðtoga til að bregðast við breyttum veruleika vopnaðra átaka þegar í stað. 

Salil Shetty, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að öryggisráð SÞ hafi algjörlega mistekist að vernda saklausa borgara.

Hann sagði að ríkin fimm sem eiga fast sæti í öryggisráðinu, þ.e. Kína, Frakkland, Bandaríkin, Rússland og Bretland, hefðu þess í stað beitt neitunarvaldi í þágu eigin hagsmuna en ekki til að vernda almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert