Smokkar verði í öllum fangelsum

Hádegisverður er borinn fram klukkan 10.30 í fangelsum San Francisco. Þetta er sá tími sem fangar ná að spjalla saman en þetta er einnig sá tími dagsins sem þeir hafa aðgang að smokkasjálfsala. Og sá hefur vakið hörð viðbrögð, aðallega utan fangelsismúranna.

Fangar í bandarískum fangelsum eru líklegri til að vera smitaðir af HIV-veirunni en þeir sem geta um frjálst höfuð strokið. Yfirvöld í San Francisco hófu því á síðustu öld að útdeila smokkum til fanga. Í dag eru á annan tug slíkra sjálfsala í fangelsum borgarinnar og dæla þeir út um tvö þúsund smokkum á mánuði hverjum.

Reynslan í fangelsum San Francisco hefur orðið til þess að stjórnvöld Kaliforníuríkis hafa leitt í lög að smokkar verði aðgengilegir öllum föngum ríkisins. Þetta hefur vakið upp miklar deilur ekki síst vegna þess að ekki aðeins er kynlíf fanga bannað samkvæmt reglum, heldur er það beinlínis glæpsamlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert