Ætla að aðskilja múslíma frá öðrum

Frönsk fangelsismálayfirvöld hyggjast reyna stemma stigu við útbreiðslu róttækrar hugmyndafræði meðal múslíma í fangelsum landsins. Meðal þess sem kemur til greina er að setja upp sérstakar álmur fyrir þá sem teljast í áhættuhópi. Mælist þetta ekki vel fyrir hjá öllum.

Bræðurnir Said og Cherif Kouachi kynntust Ame­dy Couli­ba­ly í frönsku fangelsi. Þeir stóðu að baki hryðjuverkaárásunum á ritstjórnarskrifstofur franska skopmyndaritsins Charlie Hebdo í París og síðar árás sem gerð var á matvörubúð í sömu borg. Vegna þess hafa fangelsi landsins komið til umræðu og hvort þau ali af sér hryðjuverkamenn.

Sökum þess er í skoðun að skipta föngum upp þannig að hægt sé að lágmarka áhættuna á því að róttækir múslímar myndi tengslanet. Jean-Jacques Pierre Joseph starfar sem fangelsisprestur múslíma og hann er ósáttur við hugmyndina. „Við getum ekki boðað samstöðu og að allir skuli vera jafnir en á sama tíma ýtt ákveðnum hópi manna út í horn. Við erum þegar að glíma við stéttaskiptingu á mörgum sviðum. Ef við gerum það að sérstöku vandamáli að vera múslími gerum við trúna að smánarbletti. Það tel ég ekki réttu lausnina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert