BBC nafngreinir böðulinn

Maðurinn sem BBC hefur nafngreint sem Mohammed Emwazi frá Lundúnum.
Maðurinn sem BBC hefur nafngreint sem Mohammed Emwazi frá Lundúnum. EPA

BBC hefur nafngreint manninn sem kallaður hefur verið Jihadi John og komið hefur fram í myndböndum sem sýna afhöfðanir vestrænna gísla í haldi Ríkis íslam. Samkvæmt BBC heitir hann Mohammed Emwazi og er, eða var, Lundúnabúi.

Að sögn BBC var Emwazi á radar bresku leyniþjónustunnar en hún kaus að halda nafni hans leyndu þar til nú vegna yfirstandandi aðgerða.

Emwazi birtist fyrst í myndbandi í ágúst sl. þar sem hann tók bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi. Hann er einnig talinn hafa birst í myndböndum sem sýna afhöfðanir blaðamannsins Steven Sotloff, breska hjálparstarfsmannsins David Haines, breska leigubílstjórans Alan Henning og bandaríska hjálparstarfsmannsins Abdul-Rahman Kassig, sem gekk einnig undir nafninu Peter.

Í síðasta mánuði sást Emwazi á myndbandi með japönsku gíslunum Haruna Yukawa og Kenji Goto. Báðir voru teknir af lífi.

Emwazi er talinn vera samstarfsmaður bresks einstaklings sem ferðaðist til Sómalíu 2006 og ku hafa átt aðkomu að stuðnings- og fjármögnunarneti fyrir sómölsku hryðjuverkasamtökin al-Shabab.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert