Met sett í sölu listaverka

Menn horfa nú til listaverka sem öruggrar fjárfestingar, að sögn …
Menn horfa nú til listaverka sem öruggrar fjárfestingar, að sögn stofnanda Artprice. EPA

Sala á listaverkum náði nýjum hæðum í fyrra, en það ber helst að þakka fjárfestingu nýrra listasafna. Á uppboðum voru verk seld fyrir alls 15,2 milljarða Bandaríkjadala, en stærstur hluti viðskiptanna fór fram í Kína.

Um er að ræða 26% aukningu milli ára.

Metfjöldi verka, 1.679 alls, voru slegin á yfir eina milljón Bandaríkjadala hvert. Að sögn Thierry Ehrmann, stofnanda Artprice, er um að ræða ótrúlegar niðurstöður en hann segir heildarupphæðina samsvara 300% hækkun á áratug.

Í fyrra seldust 125 listaverk á yfir 10 milljónir Bandaríkjadala, en þau voru 18 árið 2005.

Í Kína seldust verk fyrir 5,6 milljarða dala, en um er að ræða 5% samdrátt frá 2013. Bandaríkin voru í öðru sæti hvað upphæðir varðar, en þar voru listaverk seld á uppboðum fyrir alls 4,8 milljarða dala. Það er 21% aukning frá fyrra ári.

Að sögn Wang Jie, forseta Artprice, voru fleiri listasöfn stofnuð milli 2000 og 2015 en á 19. og 20. öldinni samanlagt. Hann segir nýtt safn þurfa að eiga á milli 3.000-4.000 verk til að teljast til alvöru safna.

Verk eftir Gauguin seldist á 300 milljónir Bandaríkjadala fyrr í þessum mánuði, en samkvæmt Artprice er ekki ólíkegt að milljarðamarkinu verði brátt náð. Ehrmann segir menn nú horfa til listaverka sem áreiðanlegrar fjárfestingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert