Tvöfalt líf Storms

Morten Storm hefur marga fjöruna sopið en hann ólst upp við erfiðar aðstæður í dönsku sjávarplássi, gekk til liðs við glæpasamtökin Bandidos, snérist til íslam, barist með al-Qaeda og var njósnari öryggislögreglunnar í Danmörku, bresku leyniþjónustunnar og síðar leyniþjónustu Bandaríkjanna. 

Storm, sem er 39 ára gamall, gaf nýverið út bók um tvöfalt líf sitt: Agent Storm: My Life Inside al-Qaeda and the CIA.

Morten Storm fæddist í janúar árið 1976 í bænum Korsør og ólst þar upp hjá móður sinni og stjúpföður en faðir hans, sem var drykkjumaður, hafði yfirgefið fjölskyldu þegar Storm var ungur. Stjúpfaðir hans var ofbeldishneigður og ólst Storm við heimilisofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt. Hann var ekki nema þrettán ára gamall þegar hann framdi sitt fyrsta vopnaða rán. Í kjölfarið fylgdi ofbeldi og aðrir glæpir með félögum sem flestir voru innflytjendur frá Pakistan, Íran og Tyrklandi. Þessum félögum kynntist Storm í sérskóla sem hann gekk í fyrir vandræðabörn og unglinga. 

Gróðanum eitt í áfengi og dóp

Að sögn Storm var þetta ábótasamur tími og átti hann alltaf nóg af pening sem Storm eyddi í áfengi og fíkniefni. Á tíunda áratugnum tók hann fullan þátt í gengjastríðinu á milli vélhjólagengja og stýrði hann starfsemi Bandidos í heimabæ sínum.  

Þegar hann var um tvítugt rakst hann á ævisögu Múhameðs spámanns á bókasafni bæjarins og fann hann strax mikla tenginu við spámanninn. Þar skipti miklu í hans huga virðing og einfaldleiki í lífi Múhameðs, barátta hans fyrir málstað þar sem samstaða og hollusta skiptu miklu. Eða eins og hann sagði síðar í viðtali við CNN: „Þetta breytti mér. Bókin talaði við mig. Þetta er sannleikurinn og ég upplifði sannleikann.“

Héldu upp á trúskiptin með ærlegu fylleríi

Glæpaforinginn ákvað með sjálfum sér að sverja spámanninum hollustu og tók upp múhameðstrú. Félagar hans og trúbræður tóku þessu fagnandi og héldu þeir félagar upp á trúskiptin með ærlegu fylleríi, að sögn Storms í viðtölum við fjölmiðla.

Storm var inn og út úr fangelsi á þessum árum og fangelsisdvölin herti hann í trúnni og öfgar tóku við. Gömlu félagarnir í Bandidos voru ósáttir við breytinguna á honum enda lítt trúaðir. Hann lét sig því hverfa og settist að í London þar sem hann fann skjól í moskunni í Regent Park. 

Fimmtán ára ferðalag milli tveggja heima

Þaðan lá leiðin, á skólastyrk frá Sádi-Arabíu, til Jemen þar sem hann lagði stund á nám í arabísku og trúarbrögðum.

Þar hófst ferðalag hans milli tveggja heima - Vesturlanda og Miðausturlanda - ferðalag sem varði í fimmtán ár. Hann reyndi oftar en einu sinni að festa rætur í heimalandinu,  Danmörku, án árangurs. Storm eignaðist konu á þessu tímabili og tvö börn en rótleysið réð áfram ríkjum.

Eftir dvölina í Jemen sneri hann aftur til London þar sem lifði á stuðningi frá hinu opinbera og smáglæpum. Þar eyddi hann löngum stundum með skoðanabræðrum, vafrandi á netinu þar sem síður tengdar öfgahreyfingum voru helsta viðfangsefnið. Þeir áttu það allir sameiginlegt, líkt og fjölmargir aðrir öfgasinnar í Bretlandi á þessum tíma, að dreyma um að fara í heilagt stríð.

En í byrjun árs 2006 urðu ákveðin straumhvörf í lífi Storms þegar hann var staddur í Jemen. Þar var honum boðið til veislu ásamt Anw­ar al-Awlaqi, Bandaríkjamanni fæddum árið 1971 sem var ættaður frá Jemen. Awlaki byrjaði að predika um tvítugt, varð herskárri með tímanum og fór að reka áróður fyrir heilögu stríði eftir að hann flutti til Jemen 2004.

Sáðkorni efans sáð

Awlaki heillaði fjölmarga aðra unga íslamista. Þrátt fyrir að hafa heillast að Awlaki var Storm farinn að efast um trúna og á hvaða leið hann var á sama tíma. Hann átti erfitt með að skilja að það væri Guðs vilji að fremja mannskæð hryðjuverk eins og þau sem voru gerð 11. september 2001, á Balí, í Madrid 2004 og London 2005.

„Ef þetta er hluti af fyrirfram ákveðinni áætlun Allah þá hafði ég ekki áhuga á að vera hluti þess. Minni trú mín hræddi mig og gerðist skyndilega,“ sagði Storm í viðtali við Guardian í desember. 

Bókina skrifar Storm með tveimur fréttamönnum CNN, Tim Lister og Paul Cruickshank, og sannreyndu þeir frásagnir hans þó svo ekki hafi verið hægt að sannreyna samskipti hans við leyniþjónustur víða um heim nema með upptökum og meira efni sem Storm átti. 

Bæði leyniþjónusta Breta, MI5, og PET, öryggislögregla danska ríkisins, höfðu reynt að fá Storm til liðs við sig á þessum tíma án árangurs. En þegar leiðir Storm og félaga skildu hafði hann samband við MI5 og ævintýralegt tvöfalt líf Storms hófst. Í bókinni lýsir hann drykkjustundum með liðsmönnum PET, regluóðum MI5 njósnurum og hrokafullum og forríkum CIA liðum.

Kom fram eftir að reynt var að drepa hann

En samband hans við leyniþjónusturnar rofnaði í kjölfar dráps CIA á Al-Awlaqi. Bifreið Awlaqi var sprengd í loft upp í lok september 2011 í Jemen og vill Storm meina að ástæðan fyrir því að CIA gat fylgst jafn grannt með Awlaqi og raun ber vitni sé USB lykill sem hann kom fyrir á skotmarkinu. Þeim Awlaqi var ágætlega til vina en Storm hafði komið á sambandi milli króatískrar konu, Irenu Horek, sem hafði snúist til íslam og átti sér þann draum heitastan að giftast skæruliða.

Storm krafði CIA um 5 milljónir Bandaríkjadala, 660 milljónir króna, sem honum hafði verið heitið fyrir að aðstoða við drápið en var hafnað. Hann segir að þeir hafi jafnvel reynt að taka hann af lífi. Því ákvað hann að koma fram opinberlega og segja sína hlið á málinu. Á svipuðum tíma rofnaði sambandið við bresku og dönsku leyniþjónustuna. „Njósnarar eru réttlausir, við erum einnota,“ segir Storm í samtali við AFP fréttastofuna er hann kynnti bók sína í París í vikunni.

Að sögn Storm er PET engu betri en CIA því þar á bæi hafi fjölskylda vinar hans, sem lést í Sýrlandi árið 2013, enn verið upplýst um að hann lék tveimur skjöldum og vann með PET. „Þetta dregur kjarkinn úr öðrum njósnurum. Því ef þú getur ekki treyst þinni eigin ríkisstjórn - hverjum getur þá treyst.“

Guardian

BBC

Telegraph

Le Figaro

Europe1

New York Times

CNN

Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert