Endurheimtu dóttur sína eftir 17 ár

Zephany ólst upp skammt frá raunverulegri fjölskyldu sinni í Höfðaborg.
Zephany ólst upp skammt frá raunverulegri fjölskyldu sinni í Höfðaborg. EPA

Celeste og Morné Nurse hafa endurheimt dóttur sína, 17 árum eftir að henni var rænt af fæðingardeild Groote Schuur-sjúkrahússins í Höfðaborg í Suður-Afríku. Hin 17 ára gamla Zephany vingaðist við stúlku sem reyndist alsystir hennar, en þegar faðir stúlknanna sá líkindin með þeim hafði hann umsvifalaust samband við lögreglu.

Zephany var rænt úr örmum sofandi móður sinnar, aðeins þremur dögum eftir að hún fæddist. Foreldrar hennar gáfu aldrei upp vonina á að sjá dóttur sína aftur, og hafa haldið upp á afmælisdaginn hennar í 17 ár. Zephany á þrjú yngri systkin.

Í ljós hefur komið að stúlkan ólst upp skammt frá heimili Nurse-fjölskyldunnar, en grunaði aldrei að hún tilheyrði henni. Í síðsta mánuði hóf systir hennar, Cassidy Nurse, nám við sama skóla og Zephany og þær urðu vinkonur.

Þegar Morné sá hversu líkar dóttir hans og vinkona hennar voru, hafði hann samband við lögreglu. DNA-prófanir leiddu í ljós að Zephany var dóttir hans og Celeste, og konan sem rændi Zephany og ól hana upp var fangelsuð.

Celeste hitti elstu dóttur sína í fyrsta sinn í gær, en í viðtali árið 2010 sagðist hún aldrei myndu gefa upp von. „Ég finn það á mér - dóttir mín er þarna einhvers staðar og hún mun koma heim,“ sagði hún þá.

Konan sem rændi Zephany var ákærð í dag, en talið er að hún sé um 50 ára gömul og eigi ekki önnur börn. Samkvæmt dagblaðinu Cape Argus er fjölskylda hennar í molum, en hún hefur hvorki séð né heyrt af Zephany frá því að málið komst upp.

Zephany er nú í umsjá barnaverndaryfirvalda, en Nurse-fjölskyldan vonast til þess að hún muni halda upp á afmælið sitt í apríl í faðmi fjölskyldu sinnar.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert