Átta lík fundust í fimm húsum

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Átta létust og einn særðist í skotárásum sem áttu sér stað í borginni Tyrone í Missouri í Bandaríkjunum í nótt. Lögreglan fann líkin í fimm húsum í borginni.

Yfirvöld segja að lík árásarmannsins hafi fundist í bifreið skammt frá einu húsanna, að því er segir í frétt á vef BBC.

Lögreglan fékk tilkynningu frá stúlku um kl. 22:15 að staðartíma í gærkvöldi (kl. 04:15 að íslenskum tíma í nótt) um að hún hefði heyrt skothvelli í nágrenninu. Hún hafði leitað skjóls hjá nágranna og þar sem hún gerði lögreglu viðvart. 

Lögreglumenn fóru á vettvang og fundu þeir tvö lík í fyrsta húsinu sem þeir fóru inn í. Einn særður maður og sex lík til viðbótar fundust í fjórum öðrum húsum.

Maðurinn sem er grunaður um ódæðið var 36 ára gamall. Lík hans fannst í bifreið í Shannon-sýslu en talið er að hann hafi framið sjálfsvíg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert