Aftökumaðurinn óttaðist um líf sitt í London

Mohammed Emwazi, einnig þekktur sem böðullinn „Jihadi John“, sagði við blaðamann árið 2010 að breska öryggisþjónustan léti honum líða eins og það væri aðeins tímaspursmál hvenær hann yrði feigur, eða í hans orðum: „Dead man walking.“ Kemur þetta fram í gögnum sem opinberuð voru í nótt og felast mestmegnis í tölvpóstsamskiptum Emwazi við hin bresku Cage samtök, sem berjast gegn skerðingu mannréttinda vegna stríðsins gegn hryðjuverkum.

Leiða tölvupóstarnir í ljós að árum áður en Emwazi tók að birtast í myndböndum samtakanna Íslamskt ríki, sendi hann blaðamanni tölvupóst þar sem hann sagðist íhuga sjálfsmorð eftir að hafa ítrekað rekist á starfsmenn bresku öryggisþjónustunnar í daglegu lífi.

„Einn daginn mun ég taka eins margar pillur og ég get“

Emwazi lýsir því nákvæmlega í tölvupóstunum hvernig njósnirnar létu honum líða. „Stundum líður mér eins og ég muni óhjákvæmilega deyja, ekki vegna ótta um að þeir (MI5 - breska leyniþjónustan) drepi mig. Heldur að einn daginn muni ég taka eins margar pillur og ég get svo ég muni sofa að eilífu. Ég vil bara komast í burtu frá þessu fólki!“

Tölvupóstsamskiptin við Cage samtökin hófust eftir að hann var yfirheyrður af öryggisvörðum þegar hann reyndi að fljúga frá Heathrow til heimalands síns, Kúveit, árið 2010. Sagði hann öryggisþjónustuna vera að koma í veg fyrir að hann gæti lifað sínu nýja lífi í Kúveit, þar sem hann hafði tryggt sér vinnu og var á leið í hjónaband.

Leið eins og fanga í London

Í einu skeytanna segir Emwazi, sem er útskrifaður tölvunarfræðingur frá Westminster-háskóla í London, „Mér líður eins og fanga, en ekki í búri heldur í London. Ég er manneskja í hlekkjum og undir stjórn öryggisþjónustunnar.“

Hann er talinn hafa framið að minnsta kosti fimm aftökur þar sem vestrænir hjálparstarfsmenn og blaðamenn voru hálshöggnir, þar á meðal tveir landar hans frá Bretlandi, Alan Henning og David Haines.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert