Skotin til bana eftir Facebook-rifrildi

Mynd/Wikipedia

Rifrildið hófst á samfélagsmiðlum en endaði með skotárás og morði á 14 ára gamalli stelpu. 

Kierra'onna Rice var 14 ára gömul stelpa í Birmingham í Alabama í Bandaríkjunum. Eftir heiftarlegt rifrildi við aðra stelpu á Facebook ákváðu þær að hittast í nágrenninu og útkljá rifrildið augliti til auglits. Um leið og þær hittust kom bíll akandi að þeim og hófu mennirnir í bílnum skotárás á stelpurnar. Fór svo að Rice lést af sárum sínum og fleiri stelpur sem voru viðstaddar særðust.

Að sögn vitna ætluðu stelpurnar að taka slagsmálin upp og setja á netið. 

Lögreglan í Birmingham hefur handtekið tvo pilta, 17 og 19 ára, sem grunaðir eru um skotárásina. Annar þeirra á að hafa verið kærasti annarrar stelpunnar. 

„Þetta var algjörlega tilgangslaust morð,“ segir Sean Edwards, talsmaður lögreglunnar í Birmingham, í samtali við AL News.

„Hún var góð stelpa sem lenti aldrei í vandræðum,“ segir Diamond Davies, vinkona stelpunnar, í samtali við Alabamas 13. „Hún var afar hjálpsöm,“ bætti hún við.

Hernan Henderson er í forsvari fyrir hóp í bænum sem berst gegn ofbeldi. Hann hefur áhyggjur af þróun mála. „Við verðum að komast í samskipti við mæður þessara drengja og feður og segja þeim að þessi morð eru ólíðandi. Hvaðan fá þeir þessar byssur? Hvaðan fá þeir hugmyndirnar að slíkri hegðun?“ spyr Henderson í samtali við Alabamas 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert