Böðullinn var lagður í einelti

Mohammed Emwazi.
Mohammed Emwazi. AFP

Fyrrverandi yfirkennari böðuls hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, Mohammeds Emwazi eða Jihadi-Johns eins og hann var kallaður áður en hann var nafngreindur, segir hann hafa verið lagðan í einelti í skóla. Hann hafi ekki verið sérlega félagslyndur og ekki átt marga vini.

Haft er eftir yfirkennaranum fyrrverandi, Jo Shuter, á fréttavef Daily Telegraph að starfsfólk Quintin Kynaston-skólans í vesturhluta London, höfuðborgar Bretlands, hafi þurft að grípa inn í vegna þessa á unglingsárum Emwazis. Ekki hafi farið mikið fyrir honum en hann hafi þó staðið sig ágætlega í skólanum. Hann hafi síðan komist í framhaldinu í háskólann sem hann langaði að læra við. Ekkert hafi bent til þess að hann ætti eftir að gerast hryðjuverkamaður. 

Fram kemur í fréttinni að annar fyrrverandi kennari við skólann hafi nýverið upplýst að Emwazi hafi farið á námskeið til þess að læra að stjórna reiði sinni. Hann hafi lent í mörgum slagsmálum og þurft á aðstoð að halda við að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Ennfremur segir að vitað sé um tvo aðra fyrrverandi nemendur við skólann sem hafi barist fyrir hryðjuverkasamtök í Sýrlandi annars vegar og Sómalíu hins vegar og látist þar í bardögum.

Bresk stjórnvöld hafi á laugardaginn tilkynnt að rannsókn færi fram á því til hvaða aðgerða hefði verið gripið á vegum skólans til þess að taka á öfgahyggju í röðum nemenda hans sem játa íslam sem eru um 70% nemendanna. Shuter segir það koma sér algerlega í opna skjöldu að þessir fyrrverandi nemendur skólans hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtök. Ekkert hafi bent til þess á meðan þeir hafi numið við skólann að þeir aðhylltust öfgasinnuð sjónarmið.

„Ég á ekki orð til að lýsa því hversu mikið áfall þetta var og þeim hryllingi sem þetta vakti hjá mér. Jafnvel núna þegar ég hlusta á fréttirnar og heyri nafn hans fer hrollur um mig vegna þess að þetta er svo langt frá þeim kynnum sem ég hafði af honum og það sem hann hefur gert er svo átakanlegt og hræðilegt,“ segir Shuter að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert