„Hún átti bara að vera þögul“

Kynferðisofbeldi gegn konum er nokkuð algengt í Indlandi og hefur …
Kynferðisofbeldi gegn konum er nokkuð algengt í Indlandi og hefur því verið harðlega mótmælt síðustu ár. AFP

Einn þeirra sem voru dæmdir í fangelsi fyrir að nauðga stúlku í rútu í Nýju Delhí á Indlandi árið 2012 segir í viðtali við BBC að nauðgunin hafi verið fórnarlambinu að kenna. Stúlkan lést af sárum sínum í kjölfar nauðgunarinnar. Hún var 23 ára gömul. 

Maðurinn heitir Mukesh Singh og var tekið við hann viðtal úr fangelsi. Sagði hann að konur sem færu út á kvöldin gætu kennt sjálfum sér um. „Stúlka ber meiri ábyrgð á nauðgun en strákur,“ sagði Singh.

Sagt er frá viðtalinu á vefsíðu The Daily Telegraph. 

Fórnarlamb mannsins, Jyoti Singh, var á heimleið eftir að hafa farið í kvikmyndahús með karlkyns vini sínum. Sex menn stöðvuðu fólkið og buðu þeim far í lítilli rútu sem Singh keyrði. Þar var Jyoti nauðgað og barin með járnstöngum. Vakti málið heimsathygli og skapaði umræðu og mótmæli gegn kynferðisofbeldi í landinu. 

Í viðtalinu, sem mun birtast í heimildarmynd BBC, sagði Singh að ef stúlkan og vinur hennar hefðu ekki reynt að berjast gegn nauðguninni væri stúlkan lifandi i dag. Hefðu mennirnir þá ekki þurft að berja stúlkuna en áverkar hennar drógu hana til dauða tveimur vikum eftir árásina. 

„Hún átti bara að vera þögul“

Kallaði hann það slys að stúlkan skyldi látast. „Þegar verið var að nauðga henni átti hún ekki að berjast á móti. Hún átti bara að vera þögul og leyfa nauðgunina. Þá hefðum við sleppt henni eftir á og aðeins lamið drenginn.“

Viðtalið verður sýnt á sunnudaginn, sem er alþjóðlegur dagur kvenna. Er markmiðið með viðtalinu að sýna þau hræðilegu viðhorf til kvenna sem algeng eru meðal indverskra karlmanna.

Singh var 26 ára gamall þegar árásin átti sér stað en hann keyrði rútuna. Hann neitar að hafa tekið þátt í árásinni sjálfri, en kviðdómur tók ekki mark á því eftir að DNA-sýni úr manninum fundust á vettvangi. 

Segir 20% stúlkna „góð“

Í viðtalinu sýndi Singh enga iðrun. „Heiðvirð stúlka hefði aldrei verið úti klukkan níu um kvöld. Stúlka ber miklu meiri ábyrgð á nauðgun en strákur. Strákur og stelpa eru ekki jöfn. Hússtörf og þrif eru fyrir konur, ekki vera á diskótekum og börum á kvöldin að gera ranga hluti, klæðast röngum fötum. Um 20% stúlkna eru góð,“ sagði hann. 

Dauðadómi yfir Singh var áfrýjað og nú bíður hann niðurstöðu. Hann segir að ef hann og hinir mennirnir verði dæmdir til dauða verði það hættulegt fyrir nauðgunarfórnarlömb framtíðarinnar. 

„Dauðarefsing myndi gera hlutina enn hættulegri fyrir stúlkur,“ segir hann. „Áður fyrr nauðguðu menn stúlkum og sögðu: „Láttu hana í friði, hún segir engum.“ Nú þegar þeir nauðga, sérstaklega glæpamenn, drepa þeir bara stúlkuna. Dauði,“ sagði Singh. 

Verjendur mannanna eru með svipaðar skoðanir þegar kemur að konum sem fara út úr húsi á kvöldin. Í viðtali sagði lögfræðingurinn AP Singh að ef dóttir hans eða systir stunduðu kynlíf ógiftar myndi það hafa afleiðingar. „Ég myndi án efa fara með þá systur eða dóttur að bóndabænum mínum og fyrir framan alla mína fjölskyldu myndi ég hella á hana bensíni og kveikja í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert