Látinn borða hádegismat í einangrun

Drengurinn grét á bakvið skilrúmið.
Drengurinn grét á bakvið skilrúmið. Skjáskot af Facebook

Grunnskóli í Oregonríki í Bandaríkjunum hefur neyðst til þess að biðjast afsökunar eftir að myndir þar sem sex ára drengur er látinn borða hádegismat bak við skilrúm úr pappa birtust á samfélagsmiðlum. Var það gert sem refsing eftir að drengurinn mætti einni mínútu of seint í skólann.

Fram kemur í frétt The Independent að amma drengsins, Laura Hoover, birti myndir af refsingunni á Facebook. Vöktu myndirnar gífurlega athygli og hefur færslunni verið deilt rúmlega 130 þúsund sinnum.

Í kjölfarið lýsti skólinn því yfir að hætt yrði að nota þessa leið við refsingu, en að sögn Hoover hefur drengurinn þurft að borða hádegismatinn sinn svona fimm sinnum áður. 

Sögðu skólayfirvöld þó að drengurinn, Hunter, væri mjög oft seinn. „Bíll mömmu hans vill stundum ekki fara af stað strax,“ svaraði amman. „Stundum er hann nokkrum mínútum of seinn í skólann. Þeir hafa gert þetta sex sinnum við drenginn og þetta er nokkuð sem hann stjórnar ekki! Þeir gera hann að atlægi fyrir framan aðra nemendur. Móðir hans fann hann þarna grátandi og fór með hann heim,“ segir Hoover. 

Foreldrar drengsins, Nicole Gerloff og Mark Cmelo, segjast hafa fengið afsökunarbeiðni frá skólanum og eru þau sannfærð um að þessi aðferð verði ekki notuð aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert