Skutu heimilislausan mann til bana

AFP

Myndskeið sem sýnir lögreglu skjóta heimilislausan mann til bana eftir deilur í miðborg Los Angeles um hádegið í gær hefur vakið mikla athygli og ferðast hratt á öldum netsins. 

Á myndskeiðinu sést þar sem maðurinn og nokkrir lögreglumenn deila og slást í Skid Row-hverfinu þar sem fjölmargt heimilislaust fólk heldur til. Þegar lögregla reyndi að yfirbuga manninn heyrist rödd kalla: „Leggðu frá þér byssuna!“ Nokkrum sekúndum síðar heyrast fimm byssuhvellir. Lögreglan hefur ekki upplýst hvort maðurinn var vopnaður eður ei. 

Talsmaður lögreglunnar segir í viðtali við LA Times að lögreglan hafi verið að bregðast við tilkynningu um rán á svæðinu. Hann neitaði að segja hversu margir lögreglumenn hefðu verið á staðnum en staðfestir að enginn þeirra hafi særst.

Fréttamaður BBC í Los Angeles segir ómögulegt að sjá á myndskeiðinu hvað hafi nákvæmlega gerst en að lögregla hafi heimild til þess að skjóta ef maðurinn var vopnaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert