Unnusta Nemtsovs enn í haldi

AFP

Unnusta rússneska stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsovs er enn í haldi lögreglu en hún var með honum þegar hann var myrtur á föstudagskvöldið.

Anna Duritskaja, sem er frá Úkraínu, vill fá að fara til móður sinnar í Kænugarði og segist ekki skilja hvers vegna henni sé enn haldið. Lögregla segir að það sé gert til þess að tryggja öryggi hennar.

Nemtsov, 55 ára, og Duritskaja höfðu verið úti að borða og voru á leið heim í íbúð hans þegar bifreið var ekið upp að þeim á Moskvoretskij-brúnni, skammt frá Kreml. Alls var Nemtsov skotinn fimm sinnum en Duritskaja slapp ómeidd. 

BBC vísar í frétt á vefnum Vesti.ru þar sem fram kemur að Duritskaya hafi strax hringt í lögreglu og móður sína. Þar er haft eftir móður hennar að Anna og hann hafi haldist í hendur þegar skothvellirnir heyrðust.

„Boris hrasaði og datt. Anja var mjög hrædd og hún hringdi strax í lögreglu og mig. Hún sagði í símann: Mamma, Boris var myrtur! Hann var skotinn í bakið og féll og liggur hér við hlið mér,“ er haft eftir móður Önnu. 

Öryggislögreglan FSB (áður KGB) fer með rannsókn málsins og í tilkynningu kemur fram að skotárásin sjáist ekki á öryggismyndavélum þar sem þeim var beint að Kreml. 

Tugir þúsunda tóku þátt í göngu í miðborg Moskvu í gær til þess að heiðra minningu Nemtsovs. Hann var leiðtogi hóps mótmælenda sem ætlaði að koma saman á sunnudag. 

Þekktir andstæðingar Pútíns sem hafa verið myrtir á undanförnum árum.
Þekktir andstæðingar Pútíns sem hafa verið myrtir á undanförnum árum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert