Ábyrgðin hjá fórnarlömbunum

AFP

Lögregla og félagsmálayfirvöld töldu að sex stúlkur sem voru beittar kynferðislegu ofbeldi árum saman í Oxfordskíri bæru sjálfar ábyrgð á ofbeldinu. 

Sjö menn voru dæmd­ir í lífstíðarfang­elsi í Bretlandi árið 2013 fyr­ir að mis­nota, nauðga og þvinga stúlk­ur á aldr­in­um 11-16 ára til vænd­is. Þeir til­heyrðu barn­aníðings­hring og frömdu ódæðis­verk sín í 7 ár áður en lög­regl­an hafði hend­ur í hári þeirra. Sjálfstæð skýrsla um rannsókn málsins var gefin út í dag. 

Fórnarlömbin allt að 370 talsins

Í skýrslunni sem Maggie Blyth vann er farið ofan í saumana á því hvernig sérfræðingar hunsuðu ítrekaðar viðvaranir um að eitthvað alvarlegt væri á seyði. Aðgerðarleysið varð þess valdandi að stúlkurnar þurftu að þola nauðganir, pyntingar og hrottalegt kynferðislegt ofbeldi árum saman áður en gripið var inn í. Segir í skýrslunni að stúlkurnar væru álitnar mjög erfiðar og þær bæru ábyrgð á eigin vandamálum. 

Fram kemur að niðurstaða rannsóknarinnar sé að grundvöllur sé fyrir því að allt að 370 stúlkur hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi í Oxfordskíri undanfarin fimmtán ár. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Guardian um skýrslu Blyth.

Ofbeldið gagnvart stúlkunum fór fram í gistihúsum, görum og kirkjugörðum. Stúlkunum voru gefin eiturlyf og nauðgað ítrekað af hópi karlmanna á átta ára tímabili.

Blyth segir að stúlkurnar og fjölskyldur þeirra telji að þær hafi orðið undir í kerfinu. Þær hafi ekki skipt máli hjá þeim sérfræðingum sem áttu að aðstoða þær.

Að hennar sögn voru til nægar upplýsingar um stöðu stúlkanna á árunum 2005-2010, um dópið, vændið og samband þeirra við mennina. En ekkert var gert fyrr en árið 2011 þegar farið var að tengja saman glæpina og skipulagða glæpastarfsemi sem þarna átti sér stað. 

Blyth segir að fórnarlömbunum hafi verið tjáð að þær bæru ábyrgð og fengu enga samúð meðal lögreglu né heldur félagsmálayfirvalda þegar þær létu vita hvað væri í gangi. Eitt fórnarlambið, 13 ára gömul stúlka, segir að ekki sé möguleiki á því að 13 ára gamalt barn geti skáldað svona. Önnur segir að sérfræðingarnir hafi ekki litið á hana barn sem hún var hins vegar. Engu virtist skipta að tilkynnt væri ítrekað um hvarf þeirra að heiman, jafnvel allt að 80 sinnum. 

Guardian

Nauðguðu ungum stúlkum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert