Aftökunni frestað aftur

Kelly Gissendaner.
Kelly Gissendaner. AFP

Fresta þurfti aftöku Kelly Renee Gissendaner í annað skiptið á stuttum tíma í gærkvöldi. Í síðustu viku var aftökunni frestað vegna óveðurs en núna var það vegna vandræða með lyfin sem nota átti. Óvíst er hvenær tekst að taka Gissendaner af lífi en hún er eina konan á dauðadeild í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Kelly Renee Gissendaner, 46 ára, var dæmd til dauða fyrir morðið á eiginmanni sínum árið 1997. Þegar hún verður tekin af lífi verður hún fyrsta konan sem er tekin af lífi í ríkinu í 70 ár.

Í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum í Georgíu var ákveðið að fresta aftökunni um óákveðinn tíma þar sem lyfin sem nota átti voru ekki jafntær og eðlilegt er. Var þessi ákvörðun tekin í samráði við lyfjafræðing.

Samkvæmt Reuters-fréttastofunni stóð Gissendaner að morðinu ásamt ástmanni sínum, Gregory Owen. Það var Owen sem stakk eiginmanninn, Douglas Gissendaner, til bana í úthverfi Atlanta eftir að hafa verið rænt af heimili sínu. Owen játaði að hafa myrt Gissendaner hinn 7. febrúar 1997 en sagði að Kelly hefði skipulagt morðið. Owen afplánar lífstíðardóm vegna morðsins. 

Veitt sakaruppgjöf 60 árum eftir aftökuna

Taka átti Gissendaner af lífi í fangelsinu í Jackson í síðustu viku en vegna óveðurs var aftökunni frestað um viku. Áfrýjunarnefnd hafði hafnað beiðni lögmanna hennar um að dauðarefsingunni yrði breytt í lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun og eins hafði hæstiréttur hafnað beiðni um að aftökunni yrði frestað vegna óvissu um hvaðan lyfin kæmu sem nota ætti við aftökuna.

Kona var síðast tekin af lífi í Georgíu 5. mars 1945 er Lena Baker var tekin af lífi í rafmagnsstólnum. Henni var hins vegar veitt sakaruppgjöf árið 2005, sextíu árum síðar, þar sem niðurstaðan var sú að ekki hefði átt að taka hana af lífi þar sem um sjálfsvörn var að ræða en hún var að verjast ofbeldi af hálfu vinnuveitanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert