Fann vodka í líkkistu föður síns

Melanie Nash.
Melanie Nash. Ljósmynd/Lögreglan í Colebrook

Bandarísk kona hefur játað að hafa grafið upp lík föður síns í leit að erfðaskrá en segist aðeins hafa fundið vodka og sígarettur í kistu hans. Konan, Melanie Nash, er ein fjögurra sem tengjast málinu. Hún fór í grafhvelfingu þar sem faðir hennar hvíldi í New Hampshire til að skoða hvort erfðaskrá lægi mögulega í kistu hans. Svo reyndist ekki vera.

Atvikið átti sér stað í maí á síðasta ári en í gær játaði konan verknaðinn fyrir dómi. Lögreglan segir að konan hafi ekki talið sig hafa fengið réttmætan hlut er dánarbúi föður hennar var skipt árið 2004. 

Réttarhöld í málinu áttu að hefjast í mars en Nash ákvað í gær að játa verknaðinn. Refsing hennar verður kveðin upp í maí.

Tveir aðrir játuðu aðild að málinu í gær en sá fjórði var sýknaður.

Nash segist ekki hafa fengið neitt í sinn hlut eftir föður sinn og hafi í mörg ár verið að hugsa um að opna gröf hans til að sanna að systir hennar hefði falið erfðaskrána í kistu hans. Systirin segir hins vegar að faðir þeirra hafi aðeins gert eina erfðaskrá og það árið 1995. 

„Við gerðum þetta allt af réttum ástæðum og ég er viss um að pabbi hefði verið sáttur við þetta,“ segir Nash.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert