Gengur 56 kílómetra í vinnuna

Gönguferð í Laugardalnum. Það myndi nú ekki margur Íslendingurinn ganga …
Gönguferð í Laugardalnum. Það myndi nú ekki margur Íslendingurinn ganga 56 kílómetra í vinnuna. mbl.is/Golli

Steve Simoff er 61 árs gamall og býr í Iowaríki í Bandaríkjunum. Hann starfar sem húsvörður og vinnur á næturnar. Simoff gengur í vinnuna á hverjum degi, en leiðin er um 56 kílómetrar. Stundum fær hann far hluta úr leiðinni en það er alls ekki öruggt. 

Sagt er frá Simoff á vef The Independent og vitnað í dagblaðið Des Moines Register. „Þegar þú átt fjölskyldu, og starf, þarftu að geta stutt fjölskyldu þína,“ sagði Simoff. „Þú verður að halda í vinnuna þína, það eru tveir mikilvægustu hlutirnir.“

Simoff býr í Davis City í Iowa ásamt eiginkonu sinni Renee. Hann starfar í spilavíti sem húsvörður. Vaktin hans hefst klukkan 11 um kvöld og fer hann af stað flesta daga klukkan 15:30, eða sjö og hálfum tíma áður en vaktin hefst. Simoff fær greidda rétt rúma níu bandaríkjadali á tímann eða um tólf hundruð krónur. Konan hans er á örorkubótum eftir að hún fékk heilablóðfall. 

Simoff segist aldrei hafa ferðast á puttanum en fólk stoppi stundum og bjóði honum far. Telur hann að það gerist þrjá vinnudaga vikunnar af fimm. Hann segir að erfiðast sé að fá far á sunnudögum því þá sé minnst umferð. Í viðtalinu sagði Simoff að hann gengi að meðaltali fjóra tíma á dag og þyrfti að kaupa sér nýja skó á tveggja mánaða fresti. 

Simoff og eiginkona hans keyptu sér nýlega bíl en eiga erfitt með að greiða fyrir eldsneyti. Þau segja ástæðu þess að þau búa svo langt frá vinnustað Simoffs einfalda. Leigan sé lág, en þau greiða aðeins um 400 bandaríkjadali eða 53 þúsund krónur í leigu á mánuði. 

Síðustu vikur hefur Simoff fengið reglulega far heim hluta úr leiðinni með vinnufélaga. Þá hefur hann þurft að ganga töluvert styttri leið heim eftir vaktina, eða um tólf kílómetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert