Ógna og „skíra“ fóstrin

Fóstureyðingar eru hitamál í Írlandi og Bandaríkjunum. Myndin hér fyrir …
Fóstureyðingar eru hitamál í Írlandi og Bandaríkjunum. Myndin hér fyrir ofan er tekin í mótmælum í Los Angeles og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Þegar konur sækja þjónustu á Marie Stopes-heilsugæslustöðinni í Belfast á Norður-Írlandi, býðst þeim að fá fylgd að og frá stöðinni. Ástæðan er einföld; fyrir utan stöðina stendur hópur fólks sem sem hrópar að og viðhefur ógnandi tilburði gagnvart konunum.

Af hverju? Jú, Marie Stopes framkvæmir fóstureyðingar.

Á Norður-Írlandi eru fóstureyðingar heimilar í þeim tilfellum þegar meðgangan stofnar lífi eða heilsu móðurinnar í verulega hættu. Marie Stopes-heilsugæslustöðin, sem sérhæfir sig í kynheilbrigði, býður upp á fóstureyðingar með lyfjagjöf fram að níundu viku.

Norður-Írland er eina svæðið innan Bretlands þar sem breska löggjöfin um fóstureyðingar hefur ekki verið innleidd. Sömu reglur um fóstureyðingar gilda í Írlandi og Norður-Írlandi, en samkvæmt heimasíðu Marie Stopes ferðast þúsundir írskra kvenna til Bretlands á ári hverju til að gangast undir fóstureyðingu.

Guardian hefur fjallað um sjálfboðaliðana sem leitast við að vernda skjólstæðinga Marie Stopes í Belfast fyrir svívirðingum mótmælenda fyrir utan stöðina. Þeir ganga til verksins vopnaðir talstöðvum og myndavélum, og þurfa stundum að fylgja konunum umtalsverða leið frá stöðinni til að koma þeim í öruggt skjól.

Meðal þeirra aðferða sem mótmælendurnir beita er að kalla að konunum að þær hafi drepið börnin sín, ota að þeim fósturdúkkum og setja á svið skírnir fóstra sem hefur verið eytt.

„Stundum er þetta eins og að vera í einu af þessum bandarísku ríkjum sem eru í framlínu í fóstureyðingastríðinu, eins og Texas. Ég hef þurft að fylgja konum gegnum mótmælin, alla leiðina að lestar- og strætóstöðvunum hinum megin við veginn, og stundum inn í miðbæ,“ segir sjálfboðaliðinn Emma Campbell í samtali við Guardian.

„Núna ert þú móðir dauðs barns!“ og „Við höfum skírt barnið þitt Theresa!“ eru dæmi um það sem mótmælendur hrópa að konunum sem sækja þjónustu Marie Stopes, án þess þó að vita hvort umrædd þjónusta sé fóstureyðing.

Mótmælendur hafa jafnvel gripið til þess ráðs að spila barnsgrátur í hljóðkerfi fyrir utan stöðina.

Lögregla hefur allt að því fasta viðveru í anddyri stöðvarinnar, en í nóvember sl. hlaut einn helsti talsmaður fóstureyðingaandstæðinga á Írlandi, Bernadette Smyth, dóm fyrir ofsóknir í garð stjórnanda Marie Stopes í Belfast, Dawn Purvis. Smyth, sem er stofnandi samtakanna Precious Life, var bannað að mótmæla fyrir utan stöðina.

Smyth lætur ekki deigan síga og hefur heitið því að mótmælum verði haldið áfram þar til stöðin verður tilneydd til að loka. Hún neitar því að mótmælendur geri hróp að þeim sem leita til Marie Stopes og segja sjálfboðaliðanna þvert á móti herja á mótmælendur, og flytja konurnar á brott í flýti til að boðskapur mótmælenda nái ekki eyrum þeirra.

Fulltrúar Marie Stopes segja hins vegar að hegðun mótmælenda hafi breyst til hins betra eftir að fylgdarþjónustan var tekið í gagnið.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert