Óttast sjúkdóma á Everest

Fjallgöngumenn á leið upp Everest-fjall.
Fjallgöngumenn á leið upp Everest-fjall.

Úrgangur sem fjallgöngumenn sem klífa Everest-fjall skilja eftir sig hefur safnast upp undanfarin ár og er nú talinn vera orðinn að mengunarvandamáli sem gæti dreift sjúkdómum á þessu hæsta fjalli jarðar. Þetta er mat formanns samtaka fjallgöngumanna í Nepal.

Fleiri en 700 fjallgöngumenn leggja á Everest-tind á ári hverju. Þeir eru um tvo mánuði í hlíðum fjallsins og skilja eftir sig mikið magn af saur og þvagi. Ang Tshering, formaður fjallgöngumannanna, segir að yfirvöld verði að fá göngumenn til að hreinsa eftir sig úrganginn svo hægt sé að halda fjallinu hreinu.

Fjallgöngumennirnir grafa yfirleitt holur í snjóinn þar sem þeir sinna kalli náttúrunnar þar sem engin salernisaðstaða er í fernum búðum þar sem menn venja sig smátt og smátt við hæðaraukninguna. Sá úrgangur hefur hrannast upp með tímanum.

Ríkisstjórn Nepals hefur ekki tekið á vandanum við mannlegan úrgang fram að þessu. Í ár verður hins vegar fyrsta göngutímabilið þar sem starfsmenn munu fylgjast grannt með rusli í fjallinu. Fjallagarparnir verða að greiða 4.000 dollara, jafnvirði um 536.000 króna, í tryggingu áður en þeir leggja í hann. Hana fá þeir ekki til baka nema þeir komi með átta kíló af rusli aftur með sér niður í grunnbúðirnar. Það er það magn sorps sem stjórnvöld áætla að hver göngumaður skilji eftir sig á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert