Clinton kemst í klandur

Hillary Clinton er í klandri vegna tölvupóstsamskipta sinna þegar hún …
Hillary Clinton er í klandri vegna tölvupóstsamskipta sinna þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Hillary Clinton er sökuð um að hafa brotið gegn upplýsingalögum með því að hafa notað persónulegan tölvupóstaðgang sinn til þess að senda skeyti sem tengdust störfum hennar sem utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Málið er talið geta skaðað hugsanlegt forsetaframboð hennar.

Það var bandaríska dagblaðið The New York Post sem greindi fyrst frá því að Clinton hefði notað persónulegt tölvupóstfang sitt í opinberum erindrekstri. Upplýsingalög vestanhafs kveða hins vegar á um að varðveita beri opinber bréfaskipti.

Talsmaður Hvíta hússins segir að starfsmenn ríkisstjórnar Obama hafi fengið mjög nákvæmar leiðbeiningar um að nota opinber tölvupóstföng sín við opinber störf sín. Clinton hafi ekki endilega gerst brotleg við lög. Mikilvægt sé hins vegar að varðveita gögn ef persónulegt póstfang sé notað.

Repúblikanar hafa notað tækifærið og gagnrýnt Clinton, sem gengið er út frá sem vísu að bjóði sig fram til forseta Bandaríkjanna í kosningum á næsta ári, fyrir leyndarhyggju. Talsmaður Jeb Bush, fv. ríkisstjóra í Flórída sem hyggur á forsetaframboð fyrir repúblikana, segir að Clinton ætti að birta tölvupóstsamskipti sín frá þeim tíma sem hún gegndi embætti utanríkisráðherra í stjórn Baracks Obama, forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert